EDEN gæðaáfangastaðir

EDEN logoFerðamálastofa er fyrir Íslands hönd aðili að Evrópska EDEN-verkefninu, sem stendur fyrir European Destination of Excellence. Markmið verkefnisins er að vekja athygli á gæðum, fjölbreytileika og sameiginlegum einkennum Evrópskra áfangastaða og kynna til sögunnar nýja, lítt þekkta, áfangastaði vítt og breitt um Evrópu þar sem áhersla er lögð á ferðaþjónustu í anda sjálfbærni*.

Samkeppni annað hvert ár

Annað hvert ár er haldin samkeppni um gæða áfangastaði í Evrópu og er nýtt þema í hvert sinn. Með því að hafa þau breytileg er leitast við að gefa sem flestum gerðum af stöðum og ferðaþjónustu kost á þátttöku. Auglýst er eftir umsóknum í hverju landi og einn áfangastaður valinn frá hverju þátttökuríki í Evrópu. Verðlaunaafhendingin og sýning með kynningu á öllum verðlaunaáfangastöðunum fer fram í tengslum við ferðamálaráðstefnuna The European Tourism Forum sem haldin er í Brussel á hverju hausti. Allir EDEN verðlaunahafar fá töluverða umfjöllun og kynningu í fjölmiðlum í Evrópu í tengslum við verðlaunaafhendinguna og á vefsíðum og kynningarritum EDEN verkefnisins eftir það. EDEN verðlaunin eru bæði viðurkenning á gæðum viðkomandi áfangastaðar og hafa mikla þýðingu fyrir markaðssetningu. Að jafnaði er auglýst eftir tilnefningum í febrúar/mars á hverju ári.

Tengslanet

Annar tilgangur EDEN-verkefnisins er að mynda tengslanet þeirra staða sem öðlast útnefningu. Þannig geti staðir aukið samvinnu sín á milli, skipst á upplýsingum, deilt góðum ráðum o.s.frv., öllum til hagsbóta.

EDEN-áfangastaðir Íslands

2010 - Sjálfbær ferðaþjónusta tengd vatni  (Sustainable Aquatic Tourism)

Ísland tók í fyrsta sinn þátt í EDEN-verkefninu á árinu 2010, þegar samkeppnin var haldin í 4. sinn. Þema ársins 2010 var Sjálfbær ferðaþjónusta tengd vatni (e. Sustainable Aquatic Tourism). Nokkrar áhugaverðar tillögur bárust en dómnefnd valdi Vestfirði og Vatnavini Vestfjarða EDEN sem fulltrúa fyrir hönd Íslands. 

Nánar um viðurkenningu Vestfjarða

2011 -  „Ferðaþjónusta og endurnýjun svæða“ (Tourism and Regeneration of Physical Sites)

Árið 2011 var þemað „Ferðaþjónusta og endurnýjun svæða“ (e. Tourism and Regeneration of Physical Sites) og var Stykkishólmsbær fulltrúi Íslands. Á árinu 2012 var svo tekin ákvörðun um að stækka tengslanetið enn frekar og bjóða stöðum sem orðið hafa í 2. sæti samkeppni viðkomandi lands þátttöku. Þar með bættust við tveir nýir íslenskir EDEN-staðir. Þetta eru Húsavík, sem varð í 2. sæti árið 2010 og Borgarfjörður eystri, sem varð í 2. sæti 2011.

Nánar um viðurkenningu Stykkishólms

2015 – Matartengd ferðaþjónusta (Tourism, local cuisine and gastronomy)

Umsóknarfrestur vegna EDEN-samkeppninnar rann út 19. júní en þema ársins var matartengd ferðaþjónusta (e. Tourism, local cuisine and gastronomy). Sérstök valnefnd fór yfir þær umsóknir sem bárust frá íslenskum áfangastöðum og ákvað að útnefnda Sveitarfélagið Skagafjörð sem gæðaáfangastað Íslands 2015 fyrir verkefnið Matarkistan Skagafjörður. Annað sætið hlaut Skaftárhreppur fyrir verkefnið Hvað er í matinn?

Nánar um útnefningu áfangastaða 2015

Nánari upplýsingar

Allar nánari upplýsingar fást hjá Hrafnhildi Ýr Víglundsdóttur á netfangið hrafnhildur@ferdamalastofa.is.

Vefsíður með nánari upplýsingum:

Heimasíða verkefnisins
EDEN á Facebook
EDEN á Wikipedia
________________________________________

* Skilgreining World Tourism Organization (UNWTO) á sjálfbærri ferðamennsku frá 2004 hljóðar svo: „Sjálfbær ferðaþjónusta á að:

- Nýta umhverfisauðlindir sem gegna lykilhlutverki í þróun ferðaþjónustu á sem bestan og hagkvæmastan hátt en viðhalda jafnframt nauðsynlegum vistfræðilegum ferlum og aðstoða við verndun náttúruarfs og líffræðilegrar fjölbreytni;
- Virða félags- og menningarlegan upprunaleika samfélaga í heimabyggðum, vernda menningararf þeirra, bæði byggingararf og samtímamenningu, og hefðbundin lífsgildi, og stuðla að skilningi og umburðarlyndi á milli ólíkra menningarhópa;
- Tryggja lífvænlega, langtíma efnahagslega starfsemi sem veitir öllum hagsmunaaðilum félagslegan og hagrænan ávinning er dreifist á milli þeirra á sanngjarnan hátt, þ.m.t. hvað varðar stöðugleika í möguleikum til atvinnuþáttöku

Fyrirvari:

Framkvæmdasjórn Evrópusambandsins

EDEN-verkefnið nýtur fjárhagstuðnings COSME-verkefnis (2014-2020) Evrópusambandsins.

Upplýsingarnar sem er að finna á þessari vefsíðu endurspegla eingöngu skoðanir höfundar og eru alfarið á hans ábyrgð. Ekki skal líta svo á að þær endurspegli skoðanir framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins eða Framkvæmdaskrifstofu lítilla og meðalstórra fyrirtækja (EASME) og framkvæmdastjórnin eða EASME bera ekki ábyrgð á mögulegri notkun á upplýsingum sem hér er að finna.

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?