Uppbygging og framkvæmd

Uppbygging dmp

Uppbygging verkefnis

Myndræn útskýring á aðilum sem að verkefninu koma og lýsing á ábyrgðarsviði þeirra er sýnd á meðfylgjandi mynd (hægt er að smella á myndina til að sjá hana stærri - opnast í nýjum flipa). Mælt er með að myndin sé höfð til hliðsjónar við lestur skýringanna hér að neðan.

Svæðisráð

Í svæðisráð er skipað eftir hagaðilagreiningu á verkefnasvæði viðkomandi markaðsstofu og getur fjöldi fulltrúa á milli svæða verið mismunandi. Leiða markaðsstofur landshlutanna störf þeirra. 

Hlutverk svæðisráða í I. áfanga verkefnisins var að taka ákvörðun um hversu margar áfangastaðaáætlanir yrðu unnar á hverju verkefnasvæði. Í öllum tilfellum þar sem svæðisráð hafa lokið störfum var ákvörðun þeirra sú að gera eina áfangastaðaáætlun fyrir viðkomandi landssvæði. Hver áætlun innihéldi svo eina eða fleiri aðgerðaráætlanir sem gerðar væru fyrir smærri svæði eða sérstök þemu. 

Áframhaldandi hlutverk svæðisráða verður skilgreint í II. áfanga verkefnisins. 

Vinnuhópar

Vinnuhópur er sá hópur fólks sem kemur að gerð viðkomandi áfangastaðaáætlunar og styður við störf verkefnisstjóra. Vinnuhópar eru skipaðir eftir ítarlega hagaðilagreiningu á svæðunum og innihalda breiðan hóp hagaðila. 

Verkefnisstjórar áfangastaðaáætlana – verkfærakista og vinnustofur 

Verkefnisstjórar áfangastaðaáætlana bera ábyrgð á áætlunargerðinni og vinna hana í samvinnu við vinnuhópa. Við vinnuna er stuðst við verkfærakistu frá ráðgjafa verkefnisins Tom Buncle sem hefur víðtæka reynslu af sambærilegri vinnu út um allan heim. Tom heldur reglulega snertifundi með verkefnisstjórum í gegnum allt ferlið þar sem farið verður yfir helstu áskoranir líðandi stundar og unnið að lausnum. Verkefnisstjórar hafa þannig stuðning bæði af Tom og af hverjum öðrum. Ferðamálastofa heldur utan um samráðsvettvang verkefnisstjóra og fjármagnar áætlanagerðina.  

Hvenær hefst sjálf áætlanagerðin? 

Áætlunargerðin hófst í apríl 2017. Búast má við að fyrstu vikur og mánuðir fari í gagnagreiningu og gagnaöflun en að því loknu hefjist samræður á svæðisvísu um sameiginlegar áherslur. Áhersla er lögð á að mæta hverju svæði þar sem það er statt í ferlinu og forðast endurtekningar eins og framast er unnt. Vonast er til að áætlunargerð sé lokið vorið 2018 á allflestum svæðum.

Stýrihópur áfangastaðaáætlana

Stýrihópur hefur umsjón og eftirlit með framgangi verkefnisins samkvæmt fyrirliggjandi kostnaðar- og verkáætlunum. Stýrihópur tekur ákvarðanir er varða frávik frá ofantöldum áætlunum og sér til þess að samningi um verkefnið sé fylgt í hvívetna.

Stýrihópinn skipa:

Áshildur Bragadóttir, Höfuðborgarstofu
Díana Jóhannsdóttir, Markaðsstofu Vestfjarða
Inga Hlín Pálsdóttir, Íslandsstofu
Guðjón Bragason, Sambandi íslenskra sveitarfélaga
Óskar Jósefsson, Stjórnstöð ferðamála
Skarphéðinn Berg Steinarsson, Ferðamálastofu

 

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?