Tengsl áfangastaðaáætlana við lögbundnar áætlanir

Stefnumótun ríkis og sveitarfélaga um skipulagsmál

Hér á eftir verður leitast við að útskýra á hvaða hátt áfangastaðaáætlanir tengist skipulagsgerð. Í landsskipulagsstefnu er sett fram stefna ríkisins í skipulagsmálum og almenn sjónarmið til leiðbeiningar við skipulagsgerð, svo sem hvað varða almannahagsmuni og byggðaþróun og landnotkun á landsvísu. Landsskipulagsstefna 2015-2026 felur í sér stefnu um fjögur viðfangsefni, það er skipulag á miðhálendi Íslands, skipulag í dreifbýli, búsetumynstur og dreifingu byggðar og skipulag á haf- og strandsvæðum.

Skipulagsáætlanir sveitarfélaga eru þrenns konar þ.e. svæðisskipulag, aðalskipulag og deiliskipulag. Hér á eftir fara til glöggvunar stuttar skilgreiningar á hlutverki hverrar skipulagsáætlunar fyrir sig.

  • Svæðisskipulag er skipulagsáætlun tveggja eða fleiri sveitarfélaga um sameiginleg hagsmunamál og svæðisbundnar áherslur, þróun byggðar og landnotkunar á minnst 12 ára tímabili. Skylda er að vinna svæðisskipulag fyrir höfuðborgarsvæðið, en annarsstaðar á landinu er svæðisskipulagsgerð valfrjáls.
  • Aðalskipulag er skipulagsáætlun sem nær til alls lands sveitarfélags. Í aðalskipulagi er sett fram stefna og ákvarðanir sveitarstjórnar um framtíðarnotkun lands og fyrirkomulag byggðar. Stefna sem sett er fram í aðalskipulagi er útfærð nánar í deiliskipulagi fyrir einstök hverfi eða reiti.
  • Deiliskipulag nær til afmarkaðs svæðis sem myndar heildstæða einingu – hverfis, hverfishluta, götureits eða húsaþyrpingar. Þar eru sett ákvæði um byggingarheimildir og útfærslu bygginga og frágang umhverfis.

Nánar á vef Skipulagsstofnunar

 

Reynsla af tengslum við sambærilega áætlunargerð hér á landi

Undanfarin ár hafa nokkur verkefni verið unnin hér á landi þar sem reynt hefur á samþættingu af þessu tagi í gegnum einhverskonar heildræna áætlanagerð. Má þar helst nefna verkefni um Svæðisskipulag Snæfellsness (Svæðisgarðurinn Snæfellsnes), Svæðisskipulag fyrir Suðurnes (Reykjanes jarðvangur), Áfangastaðinn Austurland og Kötlujarðvang. Þó aðferðafræði þessara verkefna sé ólík eru markmið þeirra allra svipuð, þ.e. að setja fram eina samræmda áætlun um þróun ferðaþjónustu á tilteknu svæði á forsendum svæðanna sjálfra og þeirra sem þar búa. 

 

Svæðisskipulag Reykjaness / Reykjanes jarðvangur

Sveitarfélögin á Suðurnesjum/Reykjanesi hófu vinnu við heildrænt svæðisskipulag árið 2008. Í skipulagsferlinu var tekin sú ákvörðun að tala almennt um svæðið sem Reykjanes og um að stofna jarðvang (e. Geopark) og sækja um alþjóðlega aðild/vottun fyrir slíkum til European Geopark Network og Global Geopark Network.

Umsókn til UNESCO er afar yfirgripsmikil og tekur á stórum hluta þeirra mála sem reifuð eru innan DMP áætlana, þ.e. svæðið hefur verið skilgreint innan marka þessara fimm sveitarfélaga og stefna sett um skipulag og uppbyggingu áfangastaða innan svæðisins.

Nú þegar svæðisskipulagsvinnu er lokið og svæðisskipulagið hefur verið samþykkt vinna öll sveitarfélag á Reykjanesi eftir þessari sameiginlegu stefnu um uppbyggingu jarðvangsins og haga sinni stefnumótun í aðalskipulagi eftir þeirri forgangsröðun sem þar hefur verið mótuð. Stefna aðalskipulags er auk þess í útfærð í deiliskipulagi fyrir einstök svæði.

 

Svæðisskipulag Snæfellsness / Svæðisgarðurinn Snæfellsnes

Árið 2012 ákváðu sveitarfélög á Snæfellsnesi að stofna Svæðisgarðinn Snæfellsness. Svæðisgarðurinn, sem stofnaður var 2014, er samstarf íbúa, atvinnulífs, félagasamtaka og sveitarfélaga sem „…byggir á sameiginlegri sýn um sérstöðu svæðisins og samtakamætti við að hagnýta sérstöðuna og vernda hana.“ (www.snaefellsnes.is). Til að ná fram þessari sameiginlegu sýn og tiltaka verkfæri til að ná settum markmiðum ákváðu sveitarfélögin að gera sameiginlegt svæðisskipulag sem leggði starfsemi svæðisgarðsins til grundvallar. 

Svæðisskipulagið er afar metnaðarfullt og stefnumótunarkafli þess ítarlegur þar sem markaðar eru ýmsar áherslur t.d. hvað varðar uppbyggingu ferðaþjónustu á svæðinu. Líkt og á Reykjanesi nýta sveitarfélög á Snæfellnesi þessar sameiginlegu áherslur til að forgangsraða verkefnum á sínum vegum s.s. í deiliskipulagsgerð og framkvæmdum við ferðamannastaði. Áherslur svæðisskipulagsins eru útfærðar í  aðalskipulagi hvers sveitarfélags.

 

Áfangastaðurinn Austurland

Undanfarin ár hafa sveitarfélög, ferðaþjónustuaðilar og íbúar unnið afar metnaðarfullt verkefni á Austurlandi undir heitinu Áfangastaðurinn Austurland. Markmið verkefnisins er að stefna að því að Austurland verði úrvals áfangastaður og frábært búsetusvæði sem laðar að íbúa, fyrirtæki og fjárfesta m.a. með því að gera áætlun til lengri tíma með áherslu á sjálfbæran og arðbæran vöxt ferðaþjónustu og skapandi greina (www.destinationausturland.is) (www.austurland.is – opnar í mars). 

Þessi samvinna sveitarfélaga og ferðaþjónustuaðila um sameiginlegar áherslur og vöruþróun á svæðinu hefur nú orðið til þess að í undirbúningi er svæðisskipulag fyrir Austurland þar sem niðurstöður verkefnisins liggja m.a. til grundvallar. Þegar samþykkt svæðisskipulag liggur fyrir munu sveitarfélögin, líkt og á Reykjanesi og Snæfellsnesi, forgangsraða sinni áætlanagerð og framkvæmdum eftir þeim línum sem þar eru lagðar. Auk þess verða aðalskipulagsáætlanir sveitarfélaga á svæðinu samræmdar svæðisskipulaginu, við endurskoðun eða breytingar á  aðalskipulagi.

 

Landsáætlun um uppbyggingu innviða til verndar náttúru og menningarsögulegra minja

– Umhverfisráðuneyti og Samband íslenskra sveitarfélaga

Markmið ofangreindra laga er að „…móta og samræma stefnu um uppbyggingu, rekstur og viðhald innviða í þágu náttúruverndar og til verndar menningarsögulegum minjum vegna álags af völdum ferðamennsku og útivistar…“ (http://www.althingi.is/altext/stjt/2016.020.html).
Landsáætlun byggir m.a. á gögnum frá sveitarfélögum, Minjastofnun og Umhverfisstofnun um uppbyggingarþörf innviða á ferðamannstöðum, ferðamannaleiðum og ferðamannasvæðum. Bæði er um að ræða svæði sem nú þegar eru mikið sótt af ferðamönnum auk svæða sem líkleg eru sem áfangastaðir í framtíðinni.

Eitt af hlutverkum áfangastaðaáætlana er að marka stefnu um forgangsröðun framkvæmda innan viðkomandi verkefnissvæða og getur hvert verkefnissvæði verið samansett úr nokkrum sveitarfélögum. Við þá vinnu verður m.a. stuðst við þau gögn sem þegar eru til, þar á meðal þau sem safnað hefur verið innan Landsáætlunar. Að sama skapi skapast svo tækifæri fyrir forsvarsmenn Landsáætlunar að líta til þeirrar forgangsröðunar sem unnin hefur verið á hverju verkefnasvæði áfangastaðaáætlana þegar áherslur eru markaðar á landsvísu. Hið sama getur eftir atvikum átt við um aðrar ákvarðanir um úthlutun fjármuna, svo sem hjá Framkvæmdasjóði ferðamannastaða.

 

Aðrar heildrænar áætlanir á vegum ríkisins s.s. Byggðaáætlun og Samgönguáætlun 

Við gerð áfangastaðaáætlana skoða verkefnisstjórar og vinnuhópar á hverju verkefnasvæði áherslur samræmdra áætlana fyrir það svæði og aðliggjandi svæði. Auk þess verður greint hvaða aðgerðir, verkefni og framkvæmdir verkefnasvæðið setur í forgang til að ná fram markmiðum sínum um þróun ferðaþjónustu á viðkomandi svæði. Í kjölfarið er skoðað hvort áætlanir á landsvísu endurspegli svæðisbundnar áherslur t.d. hvað varðar uppbyggingu innviða innan svæða og tenginga/samstarfs á milli svæða.

 

Sóknaráætlanir landshlutanna

Litið verður til landshlutabundinna áætlana á sama hátt og áætlana á landsvísu, þ.e. skoðað hvernig áherslur á verkefnasvæðum áfangastaðaáætlana  endurspegla áherslur sóknaráætlana og hvað þarf til að brúa bilið ef áherslur eru ólíkar.

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?