Fara í efni

Ferðaskrifstofur upplýsingar og umsóknir

Um starfsemi ferðaskrifstofa gilda lög um Ferðamálastofu nr. 96/2018, lög um pakkaferðir og samtengda ferðatilhögun nr. 95/2018 ásamt reglugerð um Ferðatryggingasjóð nr. 812/2021.

Samkvæmt III kafla laga um Ferðamálastofu nr. 96/2018 skal hver sá sem hyggst starfa sem ferðaskrifstofa hafa til þess leyfi Ferðamálastofu. Falli starfsemi umsækjanda undir lög um pakkaferðir og samtengda ferðatilhögun skal hann vera aðili að Ferðatryggingasjóði áður en leyfi er veitt. Útgefið leyfi er ótímabundið.

Sækja ber um leyfi til Ferðamálastofu a.m.k. tveimur mánuðum áður en fyrirhuguð starfsemi á að hefjast.

Ferðaskrifstofa er aðili, hvort sem er einstaklingur eða lögaðili, sem setur saman, skipuleggur, býður og/eða selur pakkaferðir eða hefur milligöngu um sölu samtengdrar ferðatilhögunar í atvinnuskyni, hvort sem er að eigin frumkvæði eða eftir beiðni viðskiptavinar, innan lands eða erlendis.

Undir hugtakið ferðaskrifstofa falla allir seljendur, þ.e. skipuleggjendur og smásalar sem bjóða til sölu eða selja þjónustu sem fellur undir lög nr. 95/2018 um pakkaferðir og samtengda ferðatilhögun.

Ferðaskrifstofa getur jafnframt haft með höndum og veitt alla þá ferðatengdu þjónustu sem ferðasali dagsferða veitir, hvort sem hún er veitt í formi pakkaferða eða ekki.

Mikilvægt er forsvarsmenn ferðaskrifstofa hafi kynnt sér vel lög og reglur sem um starfsemina gilda og að veittar upplýsingar séu réttar og í samræmi við gildandi lög og reglur.

Vakin er sérstök athygli á því að Ferðamálastofu er heimilt að leggja stjórnvaldssektir á seljanda sem veitt hefur rangar eða ófullnægjandi upplýsingar sem liggja eiga til grundvallar á mati á fjárhæð iðgjalds og tryggingar, hvort sem brot eru framin af ásetningi eða gáleysi.

Ef brot er framið af stórfelldu gáleysi eða ásetningi getur brotið varðað sektum eða fangelsi allt að tveimur árum ef sakir eru miklar.

Leyfisskylda

Sala pakkaferða og samtengdrar ferðatilhögunar er leyfisskyld samkvæmt lögum um Ferðamálastofu. Þeir sem skipuleggja og selja pakkaferðir og hafa milligöngu um samtengda ferðatilhögun skulu hafa ferðaskrifstofuleyfi og vera aðilar að Ferðatryggingasjóði.


Umsókn um ferðaskrifstofuleyfi er rafræn, innskráning á rafrænt umsóknarform er með rafrænum skilríkjum. Áður en sótt er um þarf að hafa áskilin fylgigögn tilbúin, sjá sérstaka umfjöllun um fylgigögn og umsóknarferil. Málsmeðferð umsókna er rafræn.

Leyfi til reksturs ferðaskrifstofu er ekki veitt fyrr en aðild aðild að Ferðatryggingasjóði samþykkt. Til að hægt sé að samþykkja aðild að Ferðatryggingasjóði þarf umsækjandi að hafa lagt fram tryggingu og greitt iðgjald til sjóðsins.

Aðild að ferðatryggingasjóði

Skylduaðild er að Ferðatryggingasjóði. 

Áður en ferðaskrifstofuleyfi er gefið út þarf að samþykkja aðild að Ferðatryggingasjóði.

Sækja skal rafrænt um aðild að Ferðatryggingasjóði samhliða umsókn um ferðaskrifstofuleyfi. Málsmeðferð umsókna er rafræn.

Aðilar að Ferðatryggingasjóði greiða stofngjald i sjóðinn og iðgjald sem greitt er árlega. Þá skulu aðilar að Ferðatryggingasjóði leggja fram tryggingu samkvæmt ákvörðun Ferðamálastofu. Fjárhæð tryggingar er reiknuð út frá áætlaðri tryggingarskyldri veltu ferðaskrifstofunnar samkvæmt framlögðum gögnum.

Fjárhæð iðgjalds tekur mið af reiknaðri tryggingarfjárhæð og getur hlutfallið verið á bilinu 2,5% til 10% af reiknaðri tryggingarfjárhæð hvers og eins. Hlutfall iðgjalds er ákveðið af stjórn Ferðatryggingasjóðs fyrir 1. júlí ár hvert. Iðgjald í Ferðatryggingasjóð vegna ársins 2022 er 2,5% af ákvarðaðri tryggingafjárhæð, sjá nánar undir "útreikningur tryggingar og iðgjalds".

Ferðaskrifstofa sem hefur gilda tryggingu í öðru EES-ríki og leggur fram staðfestingu þess efnis telst uppfylla tryggingarskyldu sína samkvæmt lögum um pakkaferðir og samtengda ferðatilhögun og er undanskilinn skylduaðild að Ferðatryggingasjóði.

Stofngjald

Allir nýir aðilar að Ferðatryggingasjóði skulu, í lok fyrsta rekstrarárs, greiða stofngjaldi í sjóðinn sem er 1,5% af grunntryggingafjárhæð (GT) þess árs.

Næstu fjögur starfsár skulu þeir aðilar greiða 1,5% af mismuni grunntryggingafjárhæðar (GT) hvers árs og hæstu grunntryggingafjárhæðar fyrri starfsára.

  • ákvörðun árs 1: 1,5% af GT ársins
  • ákvörðun árs 2: 1,5% af mismun GT árs 1 og GT árs 2
  • ákvörðun árs 3: 1,5% af mismun GT árs 3 og GT árs 1 eða árs 2 eftir því hvor er hærri
  • ákvörðun árs 4: 1,5% af mismun GT árs 4 og GT árs 1, árs 2 eða árs 3 eftir því hver er hæst
  • ákvörðun árs 5: 1,5% af mismun GT árs 5 og GT árs 1, árs 2, árs 3 eða árs 4 eftir því hver er hæst

Lækki grunntryggingafjárhæð frá fyrra ári skal ekkert stofngjald innheimt.

Ferðamálastofa vekur athygli á ekki verða gefnar út sérstakar kvittanir fyrir greiðslu stofngjalds í Ferðatryggingasjóð en bendir á að hægt er að prenta út kvittun fyrir greiðslunni í netbanka ferðaskrifstofunnar sem fylgiskjal í bókhaldi. Einnig er möguleiki á að prenta út ákvörðun vegna fjárhæðar iðgjalds og láta fylgja með.

Iðgjald

Umsækjendur um ferðaskrifstofuleyfi, og þar með aðild að Ferðatryggingasjóði þurfa að greiða iðgjald til Ferðatryggingarsjóðs, óháð því hvenær ársins sótt er um.

Fjárhæð iðgjalds tekur mið af tryggingarfjárhæð ferðaskrifstofunnar og getur hlutfallið verið á bilinu 2,5% til 10% af tryggingarfjárhæð hvers og eins. Hlutfall iðgjalds er ákveðið af stjórn Ferðatryggingasjóðs fyrir 1. júlí ár hvert.

Greiða þarf iðgjaldið áður en aðild að sjóðnum er samþykkt og ferðaskrifstofuleyfið er gefið út. Gjalddagi iðgjalds er fjórum vikum eftir að ákvörðun um fjárhæð iðgjalds berst, greiðsluseðill berst í netbanka umsækjanda.

Iðgjöld eru óafturkræf.

Iðgjald er greitt árlega og er fjárhæðin endurmetin um leið og fjárhæð trygginga. Hlutfall iðgjalds kann að breytast á milli ára en það er stjórn Ferðatryggingasjóðs sem tekur ákvörðun um hlutfall iðgjalds fyrir 1. júlí ár hvert. Stjórn sjóðsins er heimilt að ákveða að iðgjaldið sé á bilinu 2,5% -10% af fjárhæð tryggingar.

Vanræki umsækjandi að greiða fyrsta iðgjald á gjalddaga verður umsókn hans hafnað.

Ferðamálastofa vekur athygli á ekki verða gefnar út sérstakar kvittanir fyrir greiðslu iðgjalds í Ferðatryggingasjóð en bendir á að hægt er að prenta út kvittun fyrir greiðslunni í netbanka ferðaskrifstofunnar sem fylgiskjal í bókhaldi. Einnig er möguleiki á að prenta út ákvörðun vegna fjárhæðar iðgjalds og láta fylgja með.

Trygging

Aðilar að Ferðatryggingasjóði þurfa að leggja fram tryggingu samkvæmt ákvörðun Ferðamálastofu. Tryggingin skal vera í gildi á meðan að leyfi ferðaskrifstofunnar er í gildi og í allt að sex mánuði eftir að leyfi eða aðild að sjóðnum fellur niður.

Við ákvörðun um fjárhæð tryggingar skal taka mið af tryggingarþörf hvers aðila á grundvelli árlegrar tryggingaskyldrar veltu hans. Auk þess skal fjárhæð tryggingar taka mið af fjárhagsstöðu seljanda og áhættu af rekstri hans.

Trygging getur verið:

  1. Fé á reikningi í nafni Ferðamálastofu i viðurkenndum banka eða sparisjóði.
  2. Ábyrgð viðskiptabanka eða sparisjóðs eða vátrygging hjá vátryggingafélagi.
  3. Önnur trygging sem Ferðamálastofa metur fullnægjandi. Leggja skal fram yfirlýsingu um að gildissvið og fjárhæð slíkrar tryggingar sé í samræmi við lög nr. 95/2018.

Tryggingarskyldur aðili getur haft gilda tryggingu í öðru EES-ríki og skal hann þá leggja fram fullnægjandi staðfestingu þess efnis.

Tilgangur tryggingar - tryggingavernd

Greiðslur sem ferðamaður hefur innt af hendi vegna pakkaferðar eða samtengdrar ferðatilhögunar sem ekki er framkvæmd í samræmi við samning komi til ógjaldfærni eða gjaldþrots ferðaskrifstofu njóta tryggingaverndar Ferðatryggingasjóðs sem endurgreiðir þær.

Tryggingavernd Ferðatryggingasjóðs nær einnig til endurgreiðslu hafi ferðaskrifstofuleyfi verið fellt niður af ástæðum sem rekja má til vanefnda ferðaskrifstofunnar, þ.e. að trygging skv. ákvörðun Ferðamálastofu hefur ekki verið lögð fram, vanskil hafi orðið á greiðslu iðgjalds eða stofngjalds eða hún hafi ekki veitt þær upplýsingar sem nauðsynlegar eru til að meta fjárhæð iðgjalds eða tryggingar.

Sé niðurfelling af öðrum ástæðum en getið er um hér að ofan, svo sem niðurfelling leyfis að beiðni leyfishafa eða vegna rekstrarstöðvunar, njóta greiðslur ekki tryggingaverndar Ferðatryggingasjóðs.

Tryggingavernd vegna sölu pakkaferða

Endurgreiðslan nær til allrar ferðatengdrar þjónustu sem er hluti af samningi um pakkaferð og er ekki veitt sökum gjaldþrots eða ógjaldfærni ferðaskrifstofu eða vegna þess að leyfi ferðaskrifstofunnar hefur verið fellt niður sökum vanefnda ferðaskrifstofunnar (sjá hér að ofan).

Endurgreiðslan nær til:

  • Greiðslna sem greiddar hafa verið fyrir pakkaferð sem er ófarin, hvort sem hún er greidd að hluta eða að fullu.
  • Heimflutnings ef farþegaflutningur er hluti af samningi um pakkaferð.
  • Ef ferð er hafin skal farþega gert kleift að ljúka ferð sinni í samræmi við upphaflegan samning um pakkaferð eins og kostur er.  

Aðeins er greitt beint fjárhagslegt tjón en ekki hugsanleg óþægindi eða miski.
Ekki eru greiddir vextir eða annar kostnaður vegna kröfugerðar

Tyggingavernd vegna sölu samtengdrar ferðatilhögunar

Endurgreiðslan nær til þeirra greiðslna sem ferðaskrifstofa, sem hefur milligöngu um samtengda ferðatilhögun, hefur móttekið fyrir ferðatengda þjónustu sem ekki veitt sökum gjaldþrots eða ógjaldfærni eða vegna þess að leyfi ferðaskrifstofunnar hefur verið fellt niður sökum vanefnda ferðaskrifstfounnar. Ef ferðaskrifstofan er einnig ábyrg fyrir farþegaflutningi nær tryggingaverndin einnig til heimflutnings ferðamanns.

Hvaða velta er tryggingaskyld?

Velta af sölu pakkaferða og samtengdrar ferðatilhögunar er tryggingaskyld.

Pakkaferðir

Allar greiðslur sem seljandi móttekur vegna sölu pakkaferða eru tryggingaskyldar. Seljandi pakkaferða getur verið skipuleggjandi eða smásali.

Um skilgreiningu á pakkaferð, sjá hér.

Samtengd ferðatilhögun

Allar greiðslur sem ferðaskrifstofa, sem hefur milligöngu um samtengda ferðatilhögun, móttekur frá viðskiptavinum teljast til tryggingaskyldrar veltu.

Tryggingaskylda er ekki fyrir hendi ef ferðaskrifstofan, sem hefur milligöngu um samtengda ferðatilhögun, móttekur ekki greiðslur frá viðskiptavini.

Um skilgreiningu á samtengdri ferðatilhögun, sjá hér.

Undanþegið tryggingaskyldu

Eftirfarandi er undanþegið tryggingaskyldu:

  • ferðir sem vara í styttri tíma en sólarhring, nema næturgisting sé innifalin,
  • ferðir sem eru tilfallandi, ekki í hagnaðarskyni og aðeins fyrir takmarkaðan hóp ferðamanna,
  • ferðir sem keyptar eru í tengslum við atvinnurekstur kaupanda á grundvelli almenns samnings (rammasamnings).

Leiðbeiningamyndband:
Í myndbandinu hér að neðan er farið yfir hugtökin pakkaferð og samtengd ferðatilhögun. Útskýrt er hvað telst pakkaferð og hvað telst samtengd ferðatilögun og þar með hvað fellur trygginingarskyldu ferðaskrifstofa. Farið er yfir undanþágur sem kunna að gilda og einnig er komið inn á þær kvaðir sem sala á þessum þjónustuþáttum leggur á seljendurna, bæði varandi upplýsingaskyldu og samninga.

Hver ber tryggingaskylduna?

Skipuleggjandi

Meginreglan er sú að skipuleggjandi er tryggingaskyldur fyrir öllum pakkaferðum sem hann setur saman, býður fram eða selur.

Skipuleggjandi er tryggingaskyldur fyrir pakkaferðum sem hann selur beint til viðskiptavina sinna.

Skipuleggjandi er tryggingaskyldur fyrir pakkaferðum sem hann skipuleggur en eru seldar af öðrum.

  • Í þeim tilvikum myndi sá sem selur pakkaferð fyrir skipuleggjandann teljast smásali.
  • Sami aðili getur verið skipuleggjandi vegna eigin pakkaferða en smásali vegna pakkaferða annarra ferðaskrifstofa.

Skipuleggjanda pakkaferða er heimilt að semja við smásala um að þær pakkaferðir sem smásalinn selur fyrir skipuleggjandann séu tryggingaskyldar af smásalanum.

  • Einungis er hægt að gera slíka samninga við smásala sem eru með tryggingu innan EES svæðisins.
  • Ef samningurinn er gerður við aðila utan EES svæðisins þá ber skipuleggjandinn tryggingaskylduna.
  • Skipuleggjandinn þarf að geta sýnt fram á samning ef eftir honum er kallað. Að öðrum kosti telst öll veltan tryggingaskyld af skipuleggjanda.

Um skilgreiningu á skipuleggjanda, sjá hér.

Smásali

Smásali sem selur pakkaferð fyrir hönd skipuleggjanda í umboðssölu er ekki tryggingaskyldur vegna þeirrar ferðar. Tryggingaskyldan hvílir á skipuleggjandanum nema smásalinn semji um að bera tryggingaskylduna.

Þó að smásali selji eingöngu pakkaferðir fyrir aðra og beri ekki tryggingaskyldu vegna þeirra ferða er sala pakkferða leyfisskyld. Smásalinn þarf að vera með leyfi sem ferðaskrifstofa og vera aðili að Ferðatryggingasjóði, leggja fram lágmarkstryggingu og greiða iðgjald og stofngjald í sjóðinn.

Vakin er athygli á því að aðili sem selur pakkaferðir, samsettar af skipuleggjanda, í endursölu í eigin nafni telst skipuleggjandi og ber þar með tryggingaskyldu vegna sölu þeirra pakkaferða.

Um skilgreiningu á smásala, sjá hér.

Ferðaskrifstofur með staðfestu utan EES

Aðilar með staðfestu utan Evrópska efnahagssvæðisins, sem beina markaðssókn sinni að ferðamönnum hér á landi, skulu vera aðilar að Ferðatryggingasjóði. Þeim ber að greiða stofngjald og iðgjöld í sjóðinn og vera með tryggingu fyrir þeim pakkaferðum og samtengdri ferðatilhögun, sem beint er að íslenskum markaði, samkvæmt reglugerð um Ferðatryggingasjóð og uppfylla önnur ákvæði hennar. 

Leiðbeiningamyndband:
Í myndbandinu hér að neðan er farið yfir samband skipuleggjenda og smásala, þ.e. samband seljanda pakkaferða um það hver er tryggingarskyldur, hvað er verið að selja, hvenær er verið að selja pakka og hvenær er verið að selja þjónustuþætti. Þetta eru atriði sem skiljanlega eru oft að vefjast fyrir fólki.

Mat á fjárhæð tryggingar þegar sótt er um ferðaskrifstofuleyfi

Þegar sótt er um ferðaskrifstofuleyfi skal leggja fram áætlun um reksturinn fyrir yfirstandandi og næsta ár auk annarra upplýsinga. Sjá umfjöllun um upplýsingar og gögn hér að neðan.

Mikilvægt er forsvarsmenn ferðaskrifstofa hafi kynnt sér vel lög og reglur sem um starfsemina gilda og að veittar upplýsingar séu réttar og í samræmi við gildandi lög og reglur.

Vakin er sérstök athygli á því að Ferðamálastofu er heimilt að leggja stjórnvaldssektir á seljanda sem veitt hefur rangar eða ófullnægjandi upplýsingar sem liggja eiga til grundvallar á mati á fjárhæð iðgjalds og tryggingar, hvort sem brot eru framin af ásetningi eða gáleysi.

Ef brot er framið af ásetningi eða stórfelldu gáleysi getur brotið varðað sektum eða fangelsi allt að tveimur árum ef sakir eru miklar.

Tryggingarfjárhæð er endurskoðuð árlega. Frestur til að skila gögnum og upplýsingum er 1. apríl ár hvert.

Áríðandi er að auk þeirra upplýsinga sem fram koma á þessari síðu kynni umsækjendur sér upplýsingar um árlegt endurmat tryggingafjárhæða og iðgjalda (árleg skil), sjá nánar hér.

Útreikningur tryggingar og iðgjalds

Áður en ferðaskrifstofuleyfi er gefið úr þarf að samþykkja aðild að Ferðatryggingasjóði. Aðild telst samþykkt þegar umsækjandi hefur lagt fram tryggingu og greitt iðgjald.

Ferðamálastofa tekur ákvörðun um fjárhæð tryggingar og iðgjalds á grundvelli framlagðra gagna hvers umsækjanda.

Tryggingafjárhæð:

Tryggingafjárhæð byggist á áætlaðri tryggingaskyldri veltu.

Við mat á fjárhæð tryggingar skulu fundin efirfarandi gildi:

  • G: Grunntala sem er meðaltal heildar tryggingaskyldrar veltu tveggja tekjuhæstu mánaða rekstrarárs.
  • N: Meðalfjöldi daga frá fullnaðargreiðslu þar til ferð hefst,
  • h: Meðalhlutfall staðfestingargreiðslu af heildargreiðslu
  • d: Meðallengd ferða í dögum.

Fyrir nýjar ferðaskrifstofur eru gildin fundin á grundvelli áætlana fyrir yfirstandandi og komandi rekstrarár.

Reikna skal grunntryggingafjárhæð GT með eftirfarandi reiknireglu: GT = G*(N/30)+G*h+G*d/30.

Einnig er fundin tryggingarskyld velta (V) síðasta rekstrarár og hlutfallið a(V).

Hlutfallið a(V) skal vera:
12% ef ársvelta er minni en 300 mkr.,
12%-6%*(V-300 mkr.)/700 mkr. ef V er milli 300 mkr. og 1 ma.kr.,
6%-2%*(V-1 ma.kr.)/1 ma.kr. ef V er milli 1 og 2 ma.kr.
4%-2%*(V-2 ma.kr.)/3 ma.kr. ef V er stærra en 2 ma.kr.

Vegna nýrra ferðaskrifstofuleyfa er velta síðasta árs engin og hlutfallið því ávallt 12%.

Tryggingafjárhæð verður T = a(V)*GT.

Niðurstaða yfirstandandi og næsta rekstrarárs skulu bornar saman og sú niðurstaða gilda sem tryggingafjárhæð sem hærri er.

Fjárhæð tryggingar skal aldrei vera lægri en 500.000 kr.

Frestur til að leggja fram tryggingu og greiða iðgjaldið er fjórar vikur eftir að ákvörðun er send umsækjanda.

Iðgjald:

Stjórn Ferðatryggingasjóðs hefur ákveðið að iðgjald fyrir árið 2022 er 2,5%.

Samkvæmt lögum um pakkaferðir og samtengda ferðaþjónustu skal iðgjald til Ferðatryggingasjóðs nema á bilinu 2,5-10% af fjárhæð tryggingar til Ferðamálastofu og er stjórn sjóðsins falið það hlutverk að ákvarða það. Meginreglan er sú að iðgjaldið skuli nema 2,5%, sbr. athugasemdir í frumvarpi til breytingar laga þar sem sjóðnum var komið á fót.

Fyrir liggur að blikur eru á lofti í rekstri ferðaskrifstofa og rekstur þungur, líkt og síðasta ár.

Hins vegar hefur ekki komið til greiðslna úr Ferðatryggingasjóði síðastliðið ár, vegna pakkaferðar eða samtengdrar ferðatilhögunar sem er ekki framkvæmd í samræmi við samning vegna ógjaldfærni eða gjaldþrots seljanda, og eru eignir hans nokkuð yfir lögbundinni lágmarksstærð hans sem er 100 m.kr.

Með hliðsjón af því ákvarðar stjórn iðgjald til sjóðsins 2,5% vegna yfirstandandi rekstrarárs. Hins vegar er ljóst að komi til greiðslu úr sjóðnum og/eða áhætta eykst, að stjórn muni þurfa að hækka iðgjald til sjóðsins við næstu iðgjaldaákvörðun, þ.e. fyrir 1. júlí 2023.

Iðgjald í Ferðatryggingasjóð er greitt á hverju ári. Hlutfall iðgjalds er ákveðið af stjórn sjóðsins og getur verið á að á bilinu 2,5 til 10% af fjárhæð tryggingar.

Gjalddagi iðgjalds er fjórum vikum eftir að ákvörðun um fjárhæð tryggingar og iðgjalds er send umsækjanda.

Ferðamálastofa vekur athygli á ekki verða gefnar út sérstakar kvittanir fyrir greiðslu iðgjalds í Ferðatryggingasjóð en bendir á að hægt er að prenta út kvittun fyrir greiðslunni í netbanka ferðaskrifstofunnar sem fylgiskjal í bókhaldi. Einnig er möguleiki á að prenta út ákvörðun vegna fjárhæðar iðgjalds og láta fylgja með.

Tilkynning um aukna veltu - Heimild til hækkunar tryggingarfjárhæðar

Þegar leyfi hefur verið gefið út er ferðaskrifstofum skylt að tilkynna Ferðamálastofu ef fyrirsjáanlegt er að tryggingaskyld velta verði umtalsvert meiri en þau gögn sem lágu til grundvallar ákvörðun um fjárhæð tryggingar gáfu til kynna.

Ferðamálastofu er heimilt að krefja ferðaskrifstofu um hærri tryggingar í þeim tilfellum sem talið er að sérstök áhætta sé af rekstri seljanda, svo sem ef mikil aukning verður í sölu pakkaferða sem endurspeglast ekki í tryggingafjárhæð seljanda, ef eiginfjárstaða seljanda er neikvæð, eða ef að öðrum ástæðum kunni líkur að vera á að Ferðatryggingasjóður verði fyrir tjóni komi til gjaldþrots eða ógjaldfærni ferðaskrifstofunnar eða vegna þess að ferðaskrifstofuleyfið hefur verið fellt niður. Iðgjald hækkar til samræmis við hækkun tryggingafjárhæðar.

Ferðaskrifstofum er skylt að veita Ferðamálastofu viðeigandi upplýsingar og gögn svo hægt sé að leggja mat á hækkun tryggingafjárhæðar.

Bókhald og reikningsskil

Bókhald skal vera í samræmi við lög um bókhald á hverjum tíma.

Allar greiðslur sem eru mótteknar vegna sölu pakkaferða eða milligöngu um samtengda ferðatilhögun skal færa til tekna í þeim mánuði sem að ferð er farin óháð því hvenær þær eru mótteknar. Óheimilt er að jafna tekjum vegna pakkaferða og samtengdrar ferðatilhögunar yfir árið.

Sala pakkaferða og samtengdrar ferðatilhögunar skal vera aðgreinanleg frá öðrum rekstri í bókhaldi aðila.

Gæta skal þess sérstaklega að bókfæra tekjur réttilega á mánuði innan ársins. Skiptingu tekna og gjalda á mánuði skal vera hægt að lesa úr bókhaldskerfinu á aðgreinanlegan hátt.

Gildistími tryggingar

Trygging skal gilda á meðan leyfi er í gildi og skal vera tiltæk í allt að sex mánuði eftir brottfall leyfis eða eftir að starfsemi er hætt.

Leyfisskilyrði

Skilyrði leyfis er að umsækjandi eða forsvarsmaður umsækjanda, ef hann er lögaðili, uppfylli eftirfarandi skilyrði:

a. hafi búsetu innan aðildarríkja Evrópska efnahagssvæðisins eða stofnsamnings Fríverslunarsamtaka Evrópu eða í Færeyjum,

b. sé lögráða, hafi forræði á búi sínu og hafi ekki á síðustu fjórum árum í tengslum við atvinnurekstur hlotið dóm fyrir refsiverðan verknað samkvæmt lögum um Ferðamálastofu, almennum hegningarlögum eða lögum um hlutafélög, einkahlutafélög, bókhald, ársreikninga, gjaldþrotaskipti o.fl. eða staðgreiðslu opinberra gjalda,

c. hafi skráð starfsemi sína hjá ríkisskattstjóra,

d. leggi fram staðfestingu um ábyrgðartryggingu frá vátryggingafélagi sem hefur starfsleyfi á Evrópska efnahagssvæðinu.

e. Ferðamálastofu er heimilt að óska frekari gagna í tengslum við leyfisveitingu sem nauðsynleg eru til að taka afstöðu til umsóknar. (Sjá lög 96/2018 um Ferðamálastofu).

Ábyrgðartrygging / frjáls ábyrgðartrygging atvinnurekstrar frá vátryggingarfélagi

Ábyrgðartryggingunni er ætlað að tryggja viðskiptavini leyfishafa, á meðan á ferð stendur, verði þeir fyrir líkamstjóni tjóni á eigum sem rekja má til sakar leyfishafa eða starfsfólks hans. Tryggingin þarf að vera í gildi á gildistíma leyfisins.

Staðfestingu á tryggingu þarf að leggja fram með umsókn.

Leyfisbréf og auðkenni

Leyfisbréf ferðaskrifstofa eru einungis gefin út rafrænt. Ferðaskrifstofa skal í hvers kyns auglýsingum um starfsemi sína og á vef sínum nota myndrænt númerað auðkenni sem Ferðamálastofa útvegar. Ferðamálastofu er heimilt að veita undanþágu frá þessu, í sérstökum tilfellum, að fenginni umsókn leyfishafa.

Heiti og hjáheiti (markaðsheiti)

Óheimilt er að reka eða kynna starfsemi ferðaskrifstofu undir öðrum heitum en þeim sem fram koma á leyfisbréfi.

Í umsókn um leyfi skal koma fram heiti leyfishafa ásamt öllum hjáheitum (markaðsheitum) sem fyrirhugað er að nota í starfseminni. Hægt er að bæta hjáheitum á leyfi hvenær sem er, er það gert með umsókn til Ferðamálastofu sem gefur út nýtt leyfisbréf án endurgjalds.

Hjáheiti geta auk nafna eða heita verið auðkenni eða lén.

Vakin er athygli á að Ferðamálastofa ber ekki ábyrgð á hjáheitum sem skráð eru á leyfisbréf leyfishafa. Vilji leyfishafar tryggja að aðrir aðilar noti ekki þau hjáheiti eða auðkenni sem skráð eru á leyfi þeirra verða þeir að skrá hjáheitin hjá fyrirtækja- eða firmaskrá og auðkenni hjá Hugverkastofunni.

Starfsstöð

Starfsemi ferðaskrifstofu skal rekin á fastri starfsstöð.
Ef þjónustan er einungis starfrækt á rafrænan hátt skal leyfishafi uppfylla skilyrði 6. gr. laga um rafræn viðskipti og aðra rafræna þjónustu, nr. 30/2002 um það sem koma skal fram á vef hans.
Þjónustuveitandi skal veita greiðan og samfelldan aðgang að eftirfarandi upplýsingum um sig:
1. nafni,
2. heimilisfangi þar sem hann hefur staðfestu,
3. kennitölu,
4. póstfangi, netfangi og öðrum þeim upplýsingum sem gera mögulegt að hafa samband við hann á greiðan hátt,
5. virðisaukaskattsnúmeri þjónustuveitanda,
6. þeirri opinberu skrá sem hann er skráður hjá, svo sem hlutafélagaskrá, samvinnufélagaskrá eða firmaskrá, og
7. leyfi og eftirlitsaðila ef starfsemi hans er háð leyfum.

Sjá einnig heimasíðu Neytendastofu.

Fylgigögn með umsókn

Ferðamálastofa hvetur aðila til að kynna sér Leiðbeiningar um útfyllingu gagna og Leiðbeiningamyndband um útfyllingu gagna. Áríðandi er að gögnin séu rétt útfyllt.

Nauðsynlegt er að fara vel yfir að öll vottorð, staðfestingar og önnur gögn sem fylgja eiga umsókn séu til staðar áður en umsókn er fyllt út.

Mikilvægt er forsvarsmenn ferðaskrifstofa hafi kynnt sér vel lög og reglur sem um starfsemina gilda og að veittar upplýsingar séu réttar og í samræmi við gildandi lög og reglur.

Vakin er sérstök athygli á því að Ferðamálastofu er heimilt að leggja stjórnvaldssektir á seljanda sem veitt hefur rangar eða ófullnægjandi upplýsingar sem liggja eiga til grundvallar á mati á fjárhæð iðgjalds og tryggingar, hvort sem brot eru framin af ásetningi eða gáleysi.

Ef brot er framið af stórfelldu gáleysi eða ásetningi getur brotið varðað sektum eða fangelsi allt að tveimur árum ef sakir eru miklar.

Þau fylgigögn sem umsækjandi þarf sjálfur að afla eða útbúa og hengja við umsókn eru:

Einstaklingar

  • Staðfesting á skráningu á launagreiðendaskrá RSK
  • Staðfesting á ábyrgðartryggingu vátryggingafélags
  • Afrit af skattframtali síðasta árs
  • Bókhaldsgögn og upplýsingar um sölu pakkaferða og samtengdrar ferðatilhögunar (sjá hér að neðan). Gögnin fela í sér:
    • Rekstraráætlun fyrir yfirstandandi og næsta ár, skipt niður á mánuði og skal áætluð tryggingarskyld velta sérgreind.
    • Greiðsluáætlun fyrir yfirstandandi og næsta ár, skipt niður á mánuði.
    • Áætlun um efnahag fyrir yfirstandandi og næsta ár.
  • Ef einstaklingur rekur starfsemi undir öðru nafni en sínu eigin þarf að skrá heitið hjá firmaskrá RSK og láta staðfestingu þess efnis fylgja umsókn.

Lögaðilar

  • Staðfest vottorð úr fyrirtækjaskrá
  • Staðfesting á skráningu á launagreiðendaskrá RSK
  • Staðfesting á ábyrgðartryggingu vátryggingafélags
  • Stofnefnahagsreikningur ef um nýtt félag er að ræða annars áritaður ásreiningur næstliðins árs
  • Bókhaldsgögn og upplýsingar um sölu pakkaferða og samtengdrar ferðatilhögunar (sjá hér að neðan) ). Gögnin fela í sér:
    • Rekstraráætlun fyrir yfirstandandi og næsta ár, skipt niður á mánuði og skal áætluð tryggingarskyld velta sérgreind.
    • Greiðsluáætlun fyrir yfirstandandi og næsta ár, skipt niður á mánuði.
    • Áætlun um efnahag fyrir yfirstandandi og næsta ár.
    • Athugið, að einungis skráður prókúruhafi hjá Skattinum getur sótt um fyrir hönd lögaðila

 

Bókhaldsgögn

Þegar sótt er um ferðaskrifstofuleyfi ber að skila bókhaldsgögnum vegna ákvörðunar um fjárhæð tryggingar vegna sölu á pakkaferðum og milligöngu vegna samtengdrar ferðatilhögunar.

Bókhaldsgögnin eru á Excel-formi (sjá hlekki hér að neðan) sem umsækjandi þarf að byrja á að vista á eigin tölvu, fylla út og senda með umsókn sem viðhengi.

Um er að ræða þrjú skjöl:

Hlaða þarf eyðublöðum niður og vista í eigin tölvu áður en þau eru fyllt út. Áríðandi er að fylla eyðublöð rétt út og gera grein fyrir öllum umbeðnum upplýsingum.

Athugið að það ber að vinna með Excel-skjöl í Excel og skila þeim sem Excel-skjölum, ekki sem „Open Source“ eða „Numbers“.

Önnur vottorð

Annarra vottorða sem lög kveða á um að fylgi umsókn er aflað sjálfkrafa.

Umsóknarferill

Einstaklingur eða lögaðili?

Leyfishafinn er sá sem tilgreindur er sem umsækjandi í umsókninni. Hann getur annað hvort verið einstaklingur eða lögaðili. 

Umsókn lögaðila

Einungis prókúruhafi getur verið forsvarsmaður fyrirtækis gagnvart Ferðamálastofu. Umsóknin er opnuð á hlekknum hér að neðan, prókúruhafi skráir sig inn á sínum rafrænum skilríkjum, velur félagið sem sækja á um leyfi fyrir og opnar umsóknina til útfyllingar.  

Gætið þess að hafa Debet eða kreditkort fyrir greiðslu umsóknargjalds við höndina.

Opna umsókn Ferðaskrifstofuleyfi, lögaðilar

Umsókn einstaklings

Umsóknin er opnuð á hlekknum hér að neðan. Umsækjendur skrá sig inn með rafrænum skilríkjum.

Gætið þess að hafa Debet eða kreditkort fyrir greiðslu umsóknargjalds við höndina.

Opna umsókn Ferðaskrifstofuleyfi, einstaklingar

Gjöld

Vegna nýrra umsókna innheimtir Ferðamálastofa leyfisgjald og umsýslugjald.

Leyfisgjaldið er einskiptisgjald en umsýslugjald er innheimt árlega, fyrst fyrir umsókn ef síðar vegna árlegs endurmats tryggingafjárhæða.

Leyfisgjald

Gjald fyrir ferðaskrifstofuleyfi er 30.000 kr.

Umsýslugjald

Ferðamálastofu er heimilt að innheimta gjöld af ferðaskrifstofum til að standa straum af kostnaði við meðferð umsókna um aðild að sjóðnum, vegna mats á fjárhæð iðgjalda og trygginga og umsýslu vegna Ferðatryggingasjóðs.

Umsýslugjald vegna nýrra umsókna er kr. 35.000.-.

Vakin er athygli á að vegna árlegs endurmats er umsýslugjald:

  • 35.000 kr. ef heildartryggingarskyld velta síðasta árs er allt að 300 milljónum kr.
  • 75.000 kr. ef heildartryggingarskyld velta síðasta árs er yfir 300 milljónum kr.

Viðurlög

Dagsektir

Ef ekki er farið að fyrirmælum eða ákvörðunum Ferðamálastofu getur stofnunin lagt á dagsektir. Dagsektir geta numið frá 50 þús. kr. til 500 þús. kr. á dag.

Stjórnvaldssektir

Ferðamálastofu er heimilt að leggja stjórnvaldssektir á ferðaskrifstofu sem veitt hefur rangar eða ófullnægjandi upplýsingar sem liggja eiga til grundvallar á mati á fjárhæð iðgjalds og tryggingar, hvort sem brot eru framin af ásetningi eða gáleysi.

Stjórnvaldssektir geta numið allt að 5% af heildarveltu síðasta rekstrarárs hjá hverjum þeim sem aðild á að broti. Við ákvörðun um fjárhæð sektar skal hafa hliðsjón af eðli og umfangi brots eða brota, hvað brot hafa staðið lengi og hvort um ítrekað brot er að ræða.

Séu stjórnvaldssektir ekki greiddar innan mánaðar frá ákvörðun Ferðamálastofu skal greiða dráttarvexti af fjárhæð sektarinnar.

Ef brot er framið af ásetningi eða stórfelldu gáleysi getur brotið varðað sektum eða fangelsi allt að tveimur árum ef sakir eru miklar.

Sé maður dæmdur skv. framangreindu má í dómi í sakamáli á hendur honum jafnframt banna honum að fá leyfi samkvæmt lögum um Ferðamálastofu, sitja í stjórn félags sem hefur slíkt leyfi, starfa sem framkvæmdastjóri þess eða koma með örðum hætti að stjórn leyfisskylds aðila í allt að þrjú ár.

Varði meint brot bæði stjórnvaldssektum og refsingu metur Ferðamálastofa hvort mál skuli kært til lögreglu eða því lokið með stjórnvaldsákvörðun. Ef brot eru meiri háttar ber Ferðamálastofu að vísa þeim til lögreglu. Brot telst meiri háttar ef það lýtur að verulegum fjárhæðum, ef verknaður er framinn með sérstaklega vítaverðum hætti eða við aðstæður sem auka mjög á saknæmi brotsins. Jafnframt getur Ferðamálastofa á hvaða stigi rannsóknar sem er vísað máli vegna brota á lögunum til rannsóknar lögreglu.

Niðurfelling leyfis

Ferðamálastofu er ýmist heimilt eða skylt að fella niður leyfi við vissar aðstæður. Sjá sérstaka umfjöllun um niðurfellingu.

Niðurfelling leyfis

Ferðamálastofa fellir niður leyfi ferðaskrifstofu komi til ógjaldfærni eða gjaldþrots leyfishafa.

Ferðamálastofu er heimilt að fella niður leyfi ferðaskrifstofu hafi hún vanrækt að leggja fram pakkaferðatryggingu eða greiða iðgjald eða stofngjald á gjalddaga. Þá er Ferðamálastofu einnig heimilt að fella niður leyfi ferðaskrifstofu hafi hún ekki veitt þær upplýsingar sem nauðsynlegar eru til að meta fjárhæð iðgjalds eða tryggingar eða ekki lagt fram tryggingu samkvæmt ákvörðun stofnunarinnar.

Sé leyfi ferðaskrifstofu fellt niður af framangreindum orsökum getur ferðaskrifstofan ekki orðið aðili að Ferðatryggingasjóði, og þar með ekki fengið leyfi að nýju, fyrr en búð er að greiða þau iðgjöld sem voru í vanskilum og, ef við á, endurgreiða sjóðnum þá fjárhæð sem greidd hefur verið til ferðamanna.

Sé leyfi fellt niður af ofangreindum ástæðum er niðurfelling leyfisins og áskorun um kröfulýsingu birt í Lögbirtingarblaðinu, á vef Ferðamálastofu og á annan áberandi hátt eins og heppilegt þykir hverju sinni. Ferðamenn skulu lýsa kröfum sínum skriflega og skulu þær berast innan tveggja mánaða frá birtingu áskorunarinnar. Stjórn Ferðatryggingasjóðs er heimilt að framlengja kröfulýsingarfrestinn um þrjá mánuði ef sérstakar ástæður mæla með því. Kröfulýsingum skulu fylgja fullnægjandi gögn til sönnunar um kröfuna.

Aðeins kröfur sem verða til vegna ofangreindra ástæðna njóta tryggingaverndar Ferðatryggingasjóðs. Ferðatryggingasjóður greiðir lögmætar kröfur sem berast og innkallar tryggingu viðkomandi. Séu kröfur umfram fjárhæð tryggingarinnar eignast Ferðatryggingasjóður endurkröfurétt á viðkomandi ferðaskrifstofu eða þrotabú hennar. Endurkrafa sjóðsins nýtur rétthæðar í samræmi við 1. mgr. 112. gr. laga um gjaldþrotaskipti o.fl., nr. 21/1991, við gjaldþrotaskiptin.

Kostnaður sem til fellur við uppgjör í kjölfar gjaldþrots eða ógjaldfærni seljanda greiðist af tryggingu hans.

Aðrar ástæður niðurfellingar

Niðurfelling leyfis getur einnig orðið af öðrum ástæðum. Ferðamálastofa er jafnframt skylt að fella niður leyfi ferðaskrifstofu verði forsvarsmaður leyfishafa gjaldþrota eða ef hann er sviptur fjárræði.

Ferðamálastofa getur fellt úr gildi leyfi ferðaskrifstofu ef leyfihafi eða forsvarsmaður leyfishafa uppfyllir ekki lengur skilyrði leyfis samkvæmt lögum um Ferðamálastofu eða ef öryggisáætlun leyfishafa er ófullnægjandi.

Niðurfelling af þessum ástæðum skal birt í Lögbirtingarblaði, á vef Ferðamálastofu og á annan áberandi hátt eins og heppilegt þykir hverju sinni. Kröfur sem kunna að stofnast njóta ekki tryggingaverndar Ferðatryggingasjóðs og verða þeir sem telja sig eiga kröfur á hendur ferðaskrifstofunni að beina kröfum sínum að henni.

Endurkröfuréttur

Við greiðslu Ferðatryggingasjóðs til ferðamanna stofnast krafa sjóðsins á hendur viðkomandi seljanda eða þrotabúi hans. Ferðatryggingasjóði er heimilt að ganga að tryggingu seljanda skv. 25. gr. til fullnustu kröfu sinni. Komi til gjaldþrots seljanda nýtur krafa sjóðsins, sem ekki hefur fengist greidd að fullu af tryggingu seljanda, rétthæðar við gjaldþrotaskiptin í samræmi við 1. mgr. 112. gr. laga um gjaldþrotaskipti o.fl.

Kæra ákvarðana Ferðamálastofu til æðra stjórnvalds (stjórnsýslukæra)

Stjórnvaldsákvarðanir Ferðamálastofu eru kæranlegar til ráðherra.

Ákvörðun um dagsektir má skjóta til ráðherra innan fjórtán daga frá því að hún er kynnt þeim sem hún beinist að. Dagsektir reiknast ekki fyrr en frestur er liðinn. Dagsektir eru aðfararhæfar að liðnum kærufresti en kæra til ráðherra frestar aðför uns endanleg niðurstaða liggur fyrir. Málshöfðun fyrir almennum dómstólum frestar ekki aðför.

Ákvörðun Ferðamálastofu varðandi tryggingar má skjóta til ráðherra innan fjögurra vikna frá því að hún er kynnt þeim sem hún beinist að. Málskot til ráðherra frestar ekki gildistöku ákvörðunar.

Kærufrestur vegna ákvörðunar Ferðamálastofu um niðurfellingu leyfis, skv. lögum um Ferðamálastofu nr. 96/2018, er fjórar vikur. Málskot til ráðherra frestar ekki gildistöku ákvörðunar.

Um kærur vegna annarra ákvarðana en dagsektir og tryggingar fer samkvæmt stjórnsýslulögum. Almenna reglan er að stjórnvaldsákvörðun er kæranleg til æðra stjórnvalds innan þriggja mánaða frá því að hún er tilkynnt aðila.

Birting og afhending upplýsinga

Ferðamálastofu er heimilt að birta á vef sínum lista yfir leyfisskylda aðila með fullnægjandi tryggingar.

Ferðamálastofu er heimilt að afhenda stjórnvöldum annarra ríkja gögn og upplýsingar sem nauðsynleg eru við framkvæmd pakkaferðatrygginga sem og að að taka á móti slíkum gögnum og upplýsingum frá stjórnvöldum annarra ríkja.

Þarf önnur leyfi?

Umsækjanda ber að kanna hvort önnur leyfi eru nauðsynleg í tengslum við starfsemina.

  • Samgöngustofa sér um útgáfu leyfa varðandi fólksflutninga hvort sem er á landi, í lofti eða á sjó, ám og vötnum.
  • Sýslumenn sjá um útgáfu leyfa fyrir veitingastaði og gististaði.
  • Heilbrigðiseftirlit gefa út rekstrarleyfi fyrir hestaferðir og ber að tilkynna slíka starfsemi til Matvælastofnunar (MAST), sjá www.mast.is Einnig veita heilbrigðiseftirlit starfsleyfi fyrir gististaði, veitingastaði og almenningssalerni.
  • Umhverfisstofnun veitir leyfi vegna aksturs utan vega,  framkvæmda innan friðlanda, ljósmynda- og kvikmyndatöku á svæðum sem heyra undir UST, hreindýraveiða og fuglaveiða
  • Lögreglustjórar veita m.a. skotvopnaleyfi og leyfi fyrir fallhlífastökki
  • Fiskistofa veitir leyfi vegna frístundaveiða

Öryggisáætlanir

Öllum sem framkvæma eða hyggjast framkvæma skipulagðar ferðir innan íslensks yfirráðasvæðis er, frá 1. janúar 2019, skylt að hafa skriflegar öryggisáætlanir, á íslensku og ensku, fyrir hverja tegund ferðar. Skylda til gerðar öryggisáætlana nær jafnt til innlendra sem erlendra ferðaþjónustuaðila. Óheimilt er að bjóða ferð til sölu eða kynna á nokkurn hátt ef öryggisáætlun liggur ekki fyrir. Ferðaskrifstofum, sem selja eða kynna ferðir fyrir aðra, ber að ganga úr skugga um að öryggisáætlanir séu til staðar áður en ferðir eru teknar til sölu.

Öryggisáætlanir eru ekki sendar inn með umsókn en Ferðamaálstofa getur hvenær sem er kallað eftir þeim.

Nánari upplýsingar um öryggisáætlanir og gerð þeirra er að finna hér.

Neytendavernd

 

Neytendastofa annast eftirlit með lögum um pakkaferðir og samtengda ferðatilhögun og reglum settum á grundvelli þeirra, að undanskildum tryggingarákvæðunum, sem Ferðamálastofa hefur eftirlit með. Í lögunum felst verulega öflug neytendavernd og samræming á réttindum neytenda á Evrópska efnahagssvæðinu.

Upplýsingarskylda og efni samnings um pakkaferð

Lögin leggja  upplýsingaskyldu á seljendur pakkaferða fyrir samningsgerð, í samningi um pakkaferð og áður en pakkaferð hefst. Áður en samningur um pakkaferð er gerður verður seljandi að upplýsa ferðamanninn m.a. um að ferð sé pakkaferð, helstu réttindi ferðamannsins og að hann njóti tryggingarverndar komi til gjaldþrots eða ógjaldfærni seljanda. Upplýsingar þessar eru staðlaðar og á sérstöku formi sem öllum ber að nota. Einnig ber seljanda að veita ferðamanni viðeigandi upplýsingar um ferðina, um seljandann og helstu skilmála, sjá hér.

Stöðluð form vegna upplýsingagjafar fyrir pakkaferðasamninga:

Um upplýsingaskylduna gildir reglugerð nr. 1286/2018.

Á seljanda hvílir sönnunarbyrði um að farið sé að kröfum laganna um upplýsingagjöf. Hafi skipuleggjandi, eða eftir atvikum smásali, ekki veitt ferðamanni upplýsingar um viðbótargjöld eða kostnað skal ferðamaður ekki bera þessi gjöld eða kostnað.

Algengt er orðið að ferðagögn séu að öllu leyti rafræn og má ætla að flestir ferðamenn óski eftir þeim upplýsingum og gögnum sem kveðið er á um í 9. gr. laganna með rafrænum hætti. Hins vegar er rétt að veita ferðamanni umbeðin gögn á pappír sé sérstaklega óskað eftir því og er þá sérstaklega horft til þess að þau gögn sem kveðið er á um í ákvæðinu eru mikilvæg ferðagögn, svo sem farmiðar og upplýsingar um brottfarartíma. (6.-9. gr.)

Breytingar á samningi um pakkaferð fyrir brottför

Ferðamanni er heimilt að framselja samning um pakkaferð og er sérstaklega tekið fram að tilkynning, á varanlegum miðli um framsal á samningi um pakkaferð, sem er send eigi síðar en sjö dögum áður en ferð hefst telst alltaf vera með hæfilegum fyrirvara. Skipuleggjandi eða smásali skal tilkynna framseljanda um raunverulegan kostnað vegna framsalsins, sem skal vera hæfilegur og sanngjarn, og leggja fram gögn því til staðfestingar. Skipuleggjanda eða smásala er aðeins heimilt að krefjast greiðslu sem svarar til raunverulegs kostnaðar sem hann verður fyrir vegna framsalsins. (11. gr.)

Í lögunum felst sú breyting að verðhækkanir á pakkaferð eru aðeins heimilar vegna breytinga á:
• verði farþegaflutninga sem má rekja til breytinga á eldsneytisverðir eða öðrum gjöldum
• sköttum eða gjöldum sem lögð eru á ferðatengda þjónustu sem er innifalin í ferðinni
• gengi erlendra gjaldmiðla sem hafa áhrif á verð.

Hækkun er aðeins heimil ef ferðamanni er í samningi um pakkaferð gefinn sambærilegur réttur til verðlækkunar. Skipuleggjandi eða smásali skal tilkynna ferðamanni um allar verðhækkanir með skýrum og greinargóðum hætti, ásamt rökstuðningi fyrir hækkuninni og útreikningi, á varanlegum miðli, eigi síðar en 20 dögum áður en ferð hefst. Í þessu felst að síðustu 20 daga áður en ferð hefst er óheimilt að hækka verðið. (12. gr.)

Seljandi getur ekki breytt pakkaferð nema heimild til breytinga komi fram í samningi. Geri seljandi breytingu skal hann án tafar tilkynna ferðamanni, á varanlegum miðli, um fyrirhugaðar breytingar og áhrif þeirra á verð pakkaferðar, frest sem ferðamaður hefur til að svara og hvaða afleiðingar það hefur svari ferðamaður ekki innan frestsins.

Ferðamaður getur afpantað pakkaferð, sbr. 14. gr., ef breytingin felur í sér verulegar breytingar á megineinkennum ferðatengdrar þjónustu, ef skipuleggjandi getur ekki uppfyllt sérkröfur ferðmanns sem skipuleggjandi hefur samþykkt eða ef verð pakkaferðar er hækkað um meira en 8%.

Afpanti ferðamaður pakkaferð á grundvelli framangreindra breytinga á hann rétt á fullri endurgreiðslu innan 14 daga eða að þiggja í staðinn aðra pakkaferð sambærilega að gæðum eða betri. Ef breytingin leiðir til þess að pakkaferðin verði lakari að gæðum á ferðamaður rétt á verðlækkun. Verði ferðin dýrari greiðir ferðamaður mismuninn. (13. gr.)

Afpöntun og aflýsing pakkaferðar

Ferðamaður getur afpantað pakkaferð, gegn greiðslu sanngjarnar þóknunar, áður en ferðin hefst. Heimilt er að tilgreina í samningi um pakkaferð sanngjarna þóknun sem tekur mið af því hversu löngu fyrir upphaf ferðarinnar afpantað er og áætluðum tekjumissi skipuleggjanda eða smásala. Sé ekki kveðið á um þetta í samningi skal þóknunin samsvara tekjumissi skipuleggjanda eða smásala. Ferðamanni ber ekki að greiða þóknun ef afpöntun er vegna óvenjulegra og óviðráðanlegra aðstæðna sem hafa veruleg áhrif á framkvæmd pakkaferðar, flutning farþega til ákvörðunarstaðar eða verðhækkunar umfram 8%, sbr. 12. gr. laganna. Seljanda ber að endurgreiða ferðamanni innan 14 daga frá afpöntun. Óvenjulegar og óviðráðanlegar aðstæður geta t.d. verið stríðsástand, útbreiðsla farsótta eða sjúkdóma, hryðjuverk, pólitískur óstöðugleiki eða aðrar aðstæður sem hafa afgerandi áhrif á ferðalög til viðkomandi staða. (15. gr.)

Seljandi getur skv. 16. gr. aflýst pakkaferð gegn fullri endurgreiðslu til ferðamanns og án greiðslu frekari skaðabóta
• Í fyrsta lagi ef fjöldi skráðra þátttakenda er minni en sá lágmarksfjöldi sem tilgreindur er í samningi og skipuleggjandi tilkynnir ferðamanni um aflýsingu ferðarinnar innan þess frests sem tilgreindur er. Í ákvæðinu er þó sett tímamörk fyrir tilkynninguna sem taka mið af lengd ferðarinnar.
• Í öðru lagi ef skipuleggjandi eða smásali getur ekki efnt samninginn vegna óvenjulegra og óviðráðanlegra aðstæðna sem hann tilkynnir ferðamanninum um án ótilhlýðilegs dráttar fyrir upphaf ferðarinnar. Skipuleggjandi eða smásali skal endurgreiða ferðamanni greiðslur sem honum ber innan 14 daga frá aflýsingu.

Framkvæmd pakkaferðar

Skipuleggjandi og smásali bera, skv. 17. gr., sameiginlega og hvor í sínu lagi ábyrgð á framkvæmd þeirrar ferðatengdu þjónustu sem er innifalin í samningi um pakkaferð, hvort sem þjónustan er veitt af þeim eða öðrum þjónustuveitanda. Í því felst aukin neytendavernd og skýrleiki og ferðamenn geta þá hvort sem er leitað til skipuleggjanda eða smásala beri eitthvað útaf.

Skipuleggjandi eða smásali fá hæfilegan frest til að bæta úr vanefndum sem eru á framkvæmd samnings um pakkaferð. Ef úrbætur leiða til þjónustu sem er lakari að gæðum en tilgreint er í samningu um pakkaferð á ferðamaður rétt á afslætti sem jafngildir mismuninum á þeirri þjónustu sem samið var um og þeirri sem veitt var.

Ef skipuleggjandi eða smásali ræður ekki bót á vanefndum innan hæfilegs frests eða neitar að ráða bót á vanefndum getur ferðamaður sjálfur ráðið bót á þeim og krafið skipuleggjanda eða smásala um endurgreiðslu nauðsynlegs kostnaðar vegna þess. Ferðamaður getur ekki hafnað úrbótum skipuleggjanda eða smásala nema þær séu lakari að gæðum en það sem um var samið eða ef afsláttur er ófullnægjandi. (18. gr.)

Skipuleggjanda eða smásala er skylt, skv. 19. gr., að sjá fyrir heimflutningi í þeim tilvikum sem ferðamaður riftir samningi með lögmætum hætti þegar um verulega vanefnd er að ræða, sbr. 20. gr. laganna. Jafnframt er mælt fyrir um skyldu skipuleggjanda eða smásala til að veita ferðamanni aðstoð í þeim tilvikum sem hann óskar sérstaklega eftir því og jafnframt þegar röskun verður á ferð vegna óvenjulegra og óviðráðanlegra aðstæðna.

Skylda skipuleggjanda eða smásala til að sjá ferðamanni fyrir gistingu í þeim tilvikum sem heimflutningur ferðamanns tefst vegna óvenjulegra og óviðráðanlegra aðstæðna takmarkast við þrjár nætur. Takmörkun á gistingu í 3 nætur á ekki við um viðkvæma hópa (fatlaða eða hreyfihamlaða og aðstoðarmenn þeirra, þungaðar konur, fylgdarlaus ólögráða börn eða þá sem þarfnast sérstakrar læknisaðstoðar) sem eðlilegt er að skipuleggjandi eða smásali beri ríkari skyldur til að aðstoða, að því gefnu að hann hafi verið upplýstur um ástand þeirra og sérstakar þarfir áður en ferð hófst.

Vanefndaúrræði ferðamanns

Ferðamanni er heimilt að rifta samningi um pakkaferð ef verulegar vanefndir verða á framkvæmd samningsins. Ferðamaður á þá jafnframt rétt á afslætti af verði ferðarinnar sem svarar til þess hluta af ferðatengdri þjónustu sem ekki er veitt eða er verulega ábótavant. Afslátturinn skal þá vera í samræmi við umfang þeirra vanefnda sem voru á framkvæmd samnings. (20. og  21. gr.) 

Verði ferðamaður fyrir tjóni vegna verulegra vanefnda á framkvæmd pakkaferðar á hann einnig rétt á skaðabótum vegna hvers kyns tjóns sem skipuleggjandi eða smásali ber ábyrgð á og rekja má til vanefnda hans.

Skipuleggjandi eða smásali getur verið laus undan skaðabótaábyrgð ef hann sýnir fram á að vanefnd á framkvæmd samnings um pakkaferð sé
• sök ferðamanns,
• sök þriðja aðila sem ekki tengist þeirri þjónustu sem samið var um og af ófyrirsjáanlegum eða óviðráðanlegum ástæðum,
• eða ef vanefnd er vegna óvenjulegra og óviðráðanlegra aðstæðna.

Í síðastnefnda tilvikinu er um svokallaðar „force majeure“ aðstæður að ræða. (22. gr).

Upplýsingaskylda vegna samtengdrar ferðatilhögunar

Seljandi sem hefur milligöngu um samtengda ferðatilhögun skal veita ferðamanni staðlaðar upplýsingar um að:
• hann njóti ekki þeirra réttinda sem lög kveða á um að gildi aðeins um pakkaferðir,
• hver þjónustuveitandi sé aðeins ábyrgur fyrir framkvæmd sinnar þjónustu samkvæmt samningi og
• að hann njóti tryggingarverndar skv. 24. gr. laganna, tryggingaverndin er þó takmarkaðri en tryggingavernd vegna pakkaferða. (23. gr.)

 Stöðluð form fyrir upplýsingagjöf vegna samtengdrar ferðatilhögunar:

Ýmis ákvæði

Seljandi ber skv. 28. gr. ábyrgð á hvers konar skekkjum eða tæknilegum vanköntum í bókunarkerfi hans og eftir atvikum skekkjum í bókunarferlinu. Þó ber seljandi ekki ábyrgð ef skekkjur í bókun má rekja til ferðamanns eða þær verða vegna óvenjulegra og óviðráðanlegra aðstæðna.

Ef skipuleggjandi er með staðfestu utan EES-svæðisins ber smásali, skv. 29. gr., skyldur skipuleggjanda nema hann sýni sérstaklega fram á að skipuleggjandi fullnægi ákvæðum V. og VII. kafla laganna um framkvæmd pakkaferðar og um tryggingarskyldu.