Spurt og svarað um leyfismál

Hvaða leyfi veitir Ferðamálastofa?

Ferðamálastofa sér um leyfismál fyrir:

Allir sem skipuleggja í atvinnuskyni ferð, viðburð eða afþreyingu þurfa ferðaskipuleggjenda- eða ferðaskrifstofuleyfi.

Einnig sér Ferðamálastofa um skráningu á bókunarþjónustum og/eða upplýsingamiðstöðvum

Hver er munurinn á ferðaskrifstofu og ferðaskipuleggjendaleyfi?

Það sem einkum greinir ferðaskipuleggjanda frá ferðaskrifstofu er ferðin eða viðburðurinn má ekki taka lengri tíma en sólarhring. Það er um leið og gisting bætist við þarf ferðaskrifstofuleyfi.

Hvaða tryggingar þarf ég?

Bæði ferðaskipuleggjendur og ferðaskrifstofur þurfa að vera með ábyrgðartryggingu sem keypt er hjá  vátryggingarfélagi, nefnd frjáls ábyrgðartrygging. Hlutverk hennar er að tryggja viðskiptavini leyfishafa á meðan á ferð stendur verði þeir fyrir líkamstjóni eða tjón verður á munum í eigu viðskiptavina. Tryggingin þarf að vera í gildi á gildistíma leyfisins. Staðfestingu á tryggingunni þarf að leggja fram með umsókn.

Ferðaskrifstofur þurfa einnig að hafa tryggingu vegna sölu alferða en hlutverk hennar er að tryggja viðskiptavinum endurgreiðslu fjár sem þeir hafa greitt vegna ferðar komi til gjaldþrots eða rekstrarstöðvunar ferðaskrifstofu. Trygging skal einnig ná til þess að gera viðskiptavini kleift að ljúka ferð í samræmi við upphaflega áætlun hennar.

Endurgreiðslan nær til:

 • Ferðar sem enn er ófarin, þ.e. þegar ferð hefur verið greidd að hluta eða öllu leyti.
 • Til heimflutnings viðskiptavinar úr alferð, hvort sem hann er innanlands eða erlendis,. 
 • Aðeins er greitt beint fjárhagslegt tjón af alferð af tryggingarfé ferðaskrifstofu en ekki tjón sem rekja má til hugsanlegra óþæginda eða miska.

Fjárhæð trygginga er ákvörðuð með eftirfarandi hætti:

a. 60% af veltu tveggja söluhæstu mánaðanna í röð eða 
b. 35% af veltu fjögurra söluhæstu mánaðanna í röð eða
c. 15% af heildarveltu á ári

Sú niðurstaða gildir sem gefur hæstu tryggingafjárhæðina. Trygging er aldrei lægri en 1 milljón.

Tryggingin getur verið í formi ábyrgðaryfirlýsingar frá banka eða innlagnar tryggingarfjárhæðarinnar inn á bankareikning í nafni Ferðamálastofu.

Tryggingin er lögð fram þegar fyrir liggur að leyfi verði veitt. Leyfið er ekki gefið út fyrr en tryggingin hefur verið lögð fram og leyfisgjald greitt.

Hvaða fylgigögnum þarf ég að skila inn?

Ferðamálastofa getur séð um að afla þeirra gagna sem tilgreind eru í liðum 1, 3, 4 og 6 hér að neðan. Umsækjandi þarf þá að merkja við þann valkost á umsóknarformi og mælum við eindregið með að það sé gert þar sem það minnkar fyrirhöfnina til muna fyrir hvern og einn.

 1. Skráningarvottorð úr fyrirtækjaskrá (ef um er að ræða hlutafélag eða einkahlutafélag) eða firmaskrá (ef um er að ræða sameignarfélag, samlagsfélag eða einkafirma).
    a. Ef umsækjandi er einstaklingur og heiti ferðaskrifstofu er annað en nafn hans þá þarf að skrá heitið í
        firmaskrá í því umdæmi sem atvinnustarfsemin fer fram.
    b. Ef umsækjandi er hlutafélag/einkahlutafélag og heiti er annað en nafn fyrirtækis þá þarf að skrá 
        heitið í fyrirtækjaskrá.
   
 2. Vottorð um skráningu hjáheitis í fyrirtækja- eða firmaskrá.
   
 3. Búsetuvottorð vegna forsvarsmanns, sbr. a-lið 2. mgr. 9. gr. laga nr. 73/2005 um skipan ferðamála. 
  Vottorðið má fá hjá Þjóðskrá eða íbúaskrá sveitarfélags lögheimilis forsvarsmanns.
   
 4. Staðfesting á búsforræði forvarsmanns, sbr. d-lið 2. mgr. 9. gr. laga nr. 73/2005 um skipan ferðamála. 
  Vottorðið fæst hjá héraðsdómi í  umdæmi  lögheimilis forsvarsmanns.

 5. Sakavottorð fyrir forsvarsmann, sbr. c-lið 2. mgr. 9. gr. laga nr. 73/2005 um skipan ferðamála. 
  Vottorðið fæst hjá lögreglustjóra í  umdæmi  lögheimilis forsvarsmanns.

 6. Staðfesting um ábyrgðartryggingu frá vátryggingarfélagi. Ábyrgðartryggingunni er ætlað að tryggja viðskiptavini leyfishafa á meðan á ferð stendur verði þeir fyrir líkamstjóni eða tjón verði á munum í eigu viðskiptavina. 
  Ath. trygging þarf að vera í gildi á gildistíma leyfisins.

Ef um er að ræða ferðaskrifstofuleyfi þarf að auki að skila eftirfarandi:

 1. Rekstraráætlun fyrir yfirstandandi og næsta ár, skipt niður á mánuði og skal áætluð tryggingarskyld velta sérgreind. Sjá sýnishorn bókhaldsgagna sem þurfa að fylgja með umsókn um ferðaskrifstofuleyfi (Excel skjal).
 2. Greiðsluáætlun fyrir yfirstandandi og næsta ár, skipt niður á mánuði. Sjá sýnishorn bókhaldsgagna sem þurfa að fylgja með umsókn um ferðaskrifstofuleyfi (Excel skjal).
 3. Áætlun um efnahag fyrir yfirstandandi og næsta ár. Sjá sýnishorn bókhaldsgagna sem þurfa að fylgja með umsókn um ferðaskrifstofuleyfi (Excel skjal).

Hvar sæki ég um?

Allar umsóknir fara í gegnum Þjónustugátt Ferðamálastofu. Byrja þarf á að skrá sig inn með íslykli eða rafrænum skilríkjum í farsíma. Þegar innskráningu er lokið skal velja flipann "Umsóknir". Nánari leiðbeiningar um útfyllingu eru á eyðublaðinu.

Þarf ég fleiri leyfi?

Starfsemi ferðaskipuleggjenda og ferðaskrifstofa er oft háð séstökum leyfum sem tengjast eðli viðkomandi starfsemi. Hér má sem dæmi nefna hvalaskoðun og aðrar bátaferðir þar sem þarf leyfi frá Samgöngustofu vegna farþegaskipa. Einnig veitir umferðasvið Samgöngustofu ýmis leyfi sem þarf vegna fólksflutninga á landi, s.s.:

 • Rekstrarleyfi til fólksflutninga
 • Atvinnuleyfi til að mega aka leigubifreið
 • Leyfi til reksturs leigubifreiðastöðvar
 • Eðalvagnaleyfi 
 • Ökutækjaleiguleyfi (bílaleigur)

Sjá nánar á vef Samgöngustofu

Annað dæmi um tengd leyfi eru hestaleigur en sækja þarf um starfsleyfi fyrir hestaleigu til heilbrigðiseftirlits viðkomandi starfssvæðis sem tekur út alla aðstöðuna og starfsemina og gefur út starfsleyfi. Þá þarf að tilkynna starfsemina til Matvælastofnunar - MAST.

Starfsleyfisskilyrði

Samræmd starfsleyfisskilyrði eru forskriftir að starfsleyfum sem heilbrigðisnefndir sveitarfélaga og Umhverfisstofnun gefa út. Mörg þessi starfsleyfisskilyrði eiga við ferðaþjónustutengda starfsemi og því getur verið einkar gagnlegt að kynna sér lista yfir þau á vef Umhverfisstofnunar.

Hvar fæ ég leyfi fyrir gistingu eða veitingastað?

Leyfi fyrir gistingu eða veitingastarfsemi er fengið hjá sýslumanni á hverjum stað. Á vef sýslumanna er að finna greinagóðar upplýsingar um hvaðeina sem lýtur að leyfisferlinu, m.a.

 • Flokkun og tegundir veitinga- og gististaða
 • Hvar sótt er um
 • Nauðsynleg fylgigögn
 • Gildistíma og endurnýjun

Á vefnum er einnig að finna lista yfir útgefin leyfi fyrir veitinga og gististaði

Fjallað er um leyfi til sölu gistingar, veitinga, til skemmtanahalds o.fl. í lögum um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald nr. 85/2007, og reglugerð sama efnis nr. 585/2007.

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?