Hvaða leyfi þarf í ferðaþjónustu?

Athugið að upplýsingar á þessari síðu eru ekki tæmandi en eiga að gefa yfirlit um helstu leyfisflokka sem tengjast afþreyingu, gistingu og ferðum.

Leyfi Ferðamálastofu

Ferðamálastofa sér um leyfismál fyrir:

Hvers á sem skipuleggur í atvinnuskyni ferð, viðburð eða afþreyingu þarf ferðaskipuleggjenda- eða ferðaskrifstofuleyfi. Það sem einkum greinir ferðaskipuleggjanda frá ferðaskrifstofu er að viðburður, ferð, sýning eða annað sem ferðaskipuleggjandi annast, má ekki taka lengri tíma en sólarhring. M.ö.o. um leið og gisting bætist við þarf ferðaskrifstofuleyfi.

Ýmis tengd leyfi:

Starfsemi ferðaskipuleggjenda og ferðaskrifstofa er þar fyrir utan oft háð séstökum leyfum sem tengjast eðli viðkomandi starfsemi. Hér má sem dæmi nefna hvalaskoðun og aðrar bátaferðir þar sem þarf leyfi frá Samgöngustofu vegna farþegaskipa. Einnig veitir umferðasvið Samgöngustofu ýmis leyfi sem þarf vegna fólksflutninga á landi, s.s.:

  • Rekstrarleyfi til fólksflutninga
  • Atvinnuleyfi til að mega aka leigubifreið
  • Leyfi til reksturs leigubifreiðastöðvar
  • Eðalvagnaleyfi 
  • Ökutækjaleiguleyfi (bílaleigur)

Sjá nánar á vef Samgöngustofu

Annað dæmi um tengd leyfi eru hestaleigur en sækja þarf um starfsleyfi fyrir hestaleigu til heilbrigðiseftirlits viðkomandi starfssvæðis sem tekur út alla aðstöðuna og starfsemina og gefur út starfsleyfi. Þá þarf að tilkynna starfsemina til MAST sem sér um úttekt og eftirlit á aðbúnaði og velferð dýra sjá grein: http://mast.is/library/Greinar/tilkynningarskylthestahaldBBL160310bls38.pd

Veitinga- og gististaðir

Fjallað er um leyfi til sölu gistingar, veitinga, til skemmtanahalds o.fl. í lögum um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald nr. 85/2007, og reglugerð sama efnis nr. 585/2007.

Á vef sýslumanna er að finna greinagóðar upplýsingar um hvaðeina sem lýtur að leyfisferlinu, m.a.

  • Flokkun og tegundir veitinga- og gististaða
  • Hvar sótt er um
  • Nauðsynleg fylgigögn
  • Gildistíma og endurnýjun

Á vefnum er einnig að finna lista yfir útgefin leyfi fyrir veitinga og gististaði

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?