Viðbragsáætlun við gjaldþrot/rekstrarstöðvun ferðaskrifstofa

Hér er að finna upplýsingar um viðbragsáætlun Ferðamálastofu við gjaldþrot/rekstrarstöðvun ferðaskrifstofa og stöðu viðskiptavina ferðaskrifstofa.

Inngangur

Ábyrgðartryggingar ferðaskrifstofa
Ferðaskrifstofur eru skyldugar til að hafa tryggingu skv. lögum nr. 73/2005 um skipulag ferðamála. Ákvæði laga um tryggingarskyldu ferðaskrifstofa byggjast á tilskipun 90/314/EBE um ferðapakka, orlofspakka og skoðunarferðapakka og á hún einungis við um alferðir/pakkaferðir.

Ferðaskrifstofa
Ferðaskrifstofa getur verið einstaklingur eða lögaðili, sem setur saman, býður fram og selur alferðir í atvinnuskyni, hvort sem er að eigin frumkvæði eða eftir beiðni viðskiptavinar, innan lands eða erlendis. Ferðaskrifstofa getur jafnframt haft með höndum og veitt alla þá ferðatengdu þjónustu sem ferðaskipuleggjandi gerir, hvort sem hún er veitt í formi alferða eða ekki. Hugtakið ferðaskrifstofa nær bæði til ferðaheildsala og ferðasmásala samkvæmt lögum nr. 80/1994 um alferðir.
Til að geta rekið ferðaskrifstofu verður viðkomandi að hafa fengið útgefið leyfi frá Ferðamálastofu.

Alferð/pakkaferð
Alferð eða svokölluð pakkaferð skv. 5. tl. 7. gr. er fyrirfram ákveðin samsetning ekki færri en tveggja eftirtalinna atriða:

a. flutnings og/eða
b. gistingar og/eða
c. önnur þjónusta við viðskiptavin sem tekur til verulegs hluta ferðarinnar

Ferðin þarf að hafa verið seld eða boðin til sölu á einu verði og þegar þjónustan tengd ferðinni tekur til a.m.k. 24 klst. eða í henni er falin gisting. Dæmi um alferð er flug og gisting innanlands eða erlendis, hestaferð með gistingu, flug og bíll pakki, ef selt er saman á heildarverði o.s.frv. Það telst alferð þótt reikningar séu gerðir sérstaklega fyrir hvert atriði.

Hvað fæst bætt ef ferðaskrifstofa verður gjaldþrota/fer í rekstrarstöðvun?
Trygging ferðaskrifstofanna er ekki starfsábyrgðartrygging heldur rekstrarstöðvunar- og gjaldþrotatrygging sem á að tryggja skv. 16. gr.:

a. Endurgreiðslu fjár sem viðskiptavinur hefur greitt vegna alferðar sem enn er ófarin. Hafi viðskiptavinur greitt að fullu eða greitt inn á alferð hjá ferðaskrifstofu skal hann fá endurgreitt það fé sem hann hefur greitt. Viðskiptavinurinn verður að leggja fram fullnægjandi sönnunargögn um innborgunina.
b. Greiðslur til heimflutnings viðskiptavinar úr alferð, hvort sem hann er innan lands eða erlendis. Ferðamálastofa getur haft milligöngu um heimflutning farþega. Fer það eftir aðstæðum hverju sinni í hvaða formi milligangan á sér stað. Ef um milligöngu er að ræða áður en alferð er lokið skal aðeins greiddur sá hluti alferðarinnar sem viðskiptavini tókst ekki að ljúka.
c. Að viðskiptavinum sé gert kleift að ljúka alferð í samræmi við upphaflega áætlun hennar.
d. Aðeins beint fjárhagslegt tjón af alferð. Hugsanleg óþægindi eða miski er ekki bættur af tryggingarfé ferðaskrifstofu skv. 6. mgr. 16. gr.

Það að viðskiptavini sé gert kleift að ljúka alferð þýðir, skv. 1. mgr. 16. gr., að allt það sem viðskiptavinur hefur þegar greitt og er í samræmi við fyrirframákveðna alferð, hvort sem um flutning, gistingu eða aðra fyrirframgreidda hluta ferðar er að ræða, skal greiða af tryggingarfé svo að honum sé kleift að ljúka ferð sinni. Ekki er hins vegar skylt að greiða það sem viðskiptavinur kaupir aukalega, þ.e. hluta ferðar sem ekki teljast til fyrirfram ákveðinnar alferðar. Hafi tryggingarfé verið notað til að gera viðskiptavini kleift að ljúka alferð í samræmi við upphaflegan samning eru frekari kröfur ekki teknar til greina skv. 4. mgr. 16. gr.

Hvað þurfa farþegar að gera til að fá endurgreitt?
Farþegar þurfa að gera kröfu í tryggingarfé ferðaskrifstofunnar til að fá endurgreitt það fé sem þeir hafa þegar lagt fram vegna alferðarinnar. Kröfurnar eiga að sendast til Ferðamálastofu.

Ferðamálastofa birtir áskorun um kröfulýsingu í Lögbirtingarblaði og í dagblöðum. Frestur til að gera kröfu í tryggingarfjárhæð ferðaskrifstofu er 2 mánuðir eða 60 dagar frá birtingu áskorunarinnar.

Hvað er flugrekandi og er hann með ábyrgð vegna gjaldþrots eða greiðslustöðvunar?
Flugrekandi er einstaklingur, fyrirtæki eða stofnun sem stundar eða býðst til að stunda rekstur loftfars í atvinnuskyni. Flugrekandi þarf tilskilin leyfi Flugmálastjórnar Íslands (flugrekstrarleyfi) til þess að stunda atvinnuflug og sæta íslenskir flugrekendur eftirliti Flugmálastjórnar Íslands. Reglugerð 969/2008 fjallar um veitingu flugrekstrarleyfa, markaðsaðgang flugrekenda, fargjöld og farmgjöld í flugþjónustu innan evrópska efnahagssvæðisins og innleiðir reglugerð ráðsins (EBE) nr. 2407/92 um veitingu flugrekstrarleyfa til handa flugfélögum. Þar kemur fram krafa um að flugrekandi skuli skila inn fjárhagsáætlun og efnahagsreikningi vegna árlegs viðhalds flugrekstrarleyfisins. Þá kemur einnig fram krafa um að flugrekandi geti í þrjá mánuði frá upphafi rekstrar staðið undir föstum útgjöldum og rekstrarkostnaði vegna starfsemi samkvæmt viðskiptaáætlun og á grundvelli raunhæfra forsendna án þess að tekið sé tillit til tekna af rekstri félagsins.
Auk þess getur Flugmálastjórn Íslands kallað eftir fjárhagsgögnum íslenskra flugrekenda hvenær sem er.

Komi hins vegar einhverra hluta vegna til rekstrarstöðvunar eða gjaldþrots íslensks flugrekanda og hann getur ekki haldið fullri starfssemi þessa þrjá mánuði hefur farþegi, hvort sem ferð er hafin eður ei, eingöngu kröfu í þrotabúið. Flugmálastjórn er ekki kunnugt um að tryggingafélög og/eða greiðslukortafyrirtæki séu með tryggingu sem bætir tjón farþega vegna greiðsluerfiðleika eða gjaldþrots þess sem ferðin er keypt af. Í sumum tilvikum er þó hægt að leita til greiðslukortafyrirtækis og óska eftir endurgreiðslu hafi flugmiði verið greiddur með greiðslukorti. Það er þó ekki algilt.

Réttarstaða farþega sem kaupa einungis flugsæti hvort sem það er í gegnum ferðaskrifstofu eða flugfélag
Þegar aðeins er keypt flug á milli staðar A og staðar B, annað hvort af ferðaskrifstofu eða beint af flugrekanda t.d. í gegnum heimasíðu flugrekandans, er réttarstaðan önnur en ef keypt er alferð því ekki kemur til sams konar skyldutrygginga.

Farþegi á þá eingöngu kröfu á þrotabú vegna þess kostnaðar sem hann verður fyrir komi til gjaldþrots. Sé farþegi staddur erlendis þegar flugfélag verður gjaldþrota eða fær rekstrarstöðvun verður hann sjálfur að koma sér heim og á eigin kostnað.

Ef ferð er greidd að fullu/að hluta en er ófarin á viðkomandi einungis kröfu í þrotabúið. Viðkomandi þarf að kanna það hvort greiðslukortafyrirtæki endurgreiði farmiðann hafi hann verið greiddur með greiðslukorti. Sama á við ef ferð er keypt af umsýsluaðila.

Hlutverk Ferðamálastofu við meðferð mála vegna gjaldþrota/rekstrarstöðvunar ferðaskrifstofa

 • Þegar tilkynning berst Ferðamálastofu um gjaldþrot/rekstrarstöðvun ferðaskrifstofu eða eftirlit stofnunarinnar gefur tilefni til aðgerða birtir Ferðamálastofa tilkynningu þess efnis á heimasíðu sinni, www.ferdamalastofa.is. Á heimasíðunni verður einnig að finna nauðsynlegar upplýsingar fyrir viðskiptavini ferðaskrifstofunnar. Einnig má nálgast frekari upplýsingar hjá Ferðamálastofu í síma +354-535-5500 eða í gegnum netfangið nanna@ferdamalastofa.is.
 • Ferðamálastofa aflar upplýsinga um farþega, leitar samvinnu við flugfélögin og tekur ákvörðun um heimflutning farþega. Farþegum tilkynnt um stöðu og ákvörðun Ferðamálastofu.
 • Ferðamálastofa lætur birta áskorun um kröfulýsingu í Lögbirtingarblaðinu, í dagblaði og á heimasíðu Ferðamálastofu.
 • Þeir sem telja sig eiga kröfu á hendur ferðaskrifstofunni vegna alferða/pakkaferða geta lýst kröfum sínum á hendur ferðaskrifstofunni.
 • Frestur til að lýsa kröfum er 2 mánuðir eða 60 dagar frá birtingu áskorunar og verða kröfur að hafa verið lagðar fram innan þess tíma. Kröfum á að beina til Ferðamálastofu, Strandgötu 29, 600 Akureyri.
 • Með kröfulýsingum skulu fylgja nauðsynleg sönnunargögn um kröfuna s.s. farseðlar og kvittanir. Ferðamálastofa ákveður hvaða gögn eru fullnægjandi sem sönnun um kröfu.
 • Að kröfulýsingarfresti loknum tekur Ferðamálastofa afstöðu til framkominna krafna. Öllum kröfuhöfum verður svarað formlega. Ákvarðanir Ferðamálastofu lúta ákvæðum stjórnsýslulaga nr. 37/1993.
 • Ferðamálastofa sér um uppgjör krafna og greiðir út samþykktar kröfur.
 • Niðurstöður Ferðamálastofu eru kæranlegar til atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins, Skúlagötu 4, 150 Reykjavík. Kærufrestur er 3 mánuðir.


Að öðru leyti en að ofan greinir er farþegum bent á að kanna tryggingar sínar hjá tryggingafélögum og kortafyrirtækjum.

Viðbragsáætlun

Viðbragðsáætlun þessi snýr að:

1) stöðu viðskiptavina ferðaskrifstofu sem eru í pakkaferð við gjaldþrot/rekstrarstöðvun hennar
2) stöðu viðskiptavina ferðaskrifstofa sem hafa greitt alferð að hluta eða öllu leyti og alferð er ekki hafin.

Viðbragðsáætlun þessi á aðeins við um farþega í alferðum (samsett pakkaferð) en hún gildir ekki um þá sem keypta hafa einstaka hluta ferðar hjá ferðaskrifstofu eða flugrekstraraðila enda gilda tryggingar ferðaskrifstofa ekki um slíkar ferðir.

1. Staða viðskipavina ferðaskrifstofa sem eru í alferð við gjaldþrot/rekstrarstöðvun

a. Upplýsingar til farþega
Þegar tilkynning berst Ferðamálastofu um gjaldþrot/rekstrarstöðvun ferðaskrifstofu birtir Ferðamálastofa tilkynningu þess efnis á heimasíðu sinni, www.ferdamalastofa.is. Á heimasíðunni verður einnig að finna nauðsynlegar upplýsingar fyrir viðskiptavini ferðaskrifstofunnar. Einnig má nálgast frekari upplýsingar hjá Ferðamálastofu í síma + 354-535-5500 eða í gegnum netfangið nanna@ferdamalastofa.is. Símsvari utan opnunartíma mun vísa á annað númer. Eftir því sem unnt er verður skilaboðum komið til farþega um ástand mála með smátextaskilaboðum eða í tölvupósti.

b. Heimferð farþega

 • Ferðamálastofa aflar upplýsinga um bókunarstöðu, farþegafjölda, staðsetningu þeirra, lengd ferða o.fl. Skoða þarf alferðir með tilliti til þess hvort farþegar eru staddir erlendis eða innan lands.
 • Ferðamálastofa leitar hagkvæmustu leiðar um heimflutning farþega erlendis frá og leitar samvinnu við flugfélög. Um tvær leiðir er að ræða, annars vegar koma farþegar sér heim og leggja sjálfir út fyrir heimferðinni og hins vegar útvegar Ferðamálastofa heimflutning.
 • Hvert tilfelli fyrir sig er metið. Við ákvörðun um hvor leiðin verði farin þarf að skoða hversu margir farþegarnir eru, hvar þeir eru staddir, samsetningu þeirra, ferðalengd hvers og eins o.s.frv. Hafa þarf í huga að farþegum í alferð skal gert kleift að ljúka ferð sinni kjósi þeir svo.
 • Þegar sú leið er farin að farþegar komi sér sjálfir heim þá leggja þeir út fyrir heimferðinni. Þeim ber þá að leita hagkvæmasta verðs í samráði við Ferðamálastofu, hyggist þeir fá þann kostnað endurgreiddan af tryggingafé. Ferðamálastofa mun leita samstarfs við flugfélög til að auðvelda farþegum heimferð m.t.t. forgangs til sæta, hagstæðs verðs, flugleiðar o.s.frv.
 • Farþegar sem staddir eru innan lands koma sér sjálfir heim og leggja sjálfir út fyrir heimferðinni. Þeim ber að leita hagkvæmasta verðs í samráði við Ferðamálastofu hyggist þeir fá þann kostnað endurgreiddan af tryggingafé. Ekki verður um frekari milligöngu að ræða af hálfu Ferðamálastofu.
 • Ef Ferðamálastofa útvegar heimflutning þarf að taka ákvörðun varðandi kostnað, tímasetningu og framkvæmd ferðarinnar. Kanna þarf aðstæður í hverju tilfelli fyrir sig s.s. tímalengd ferða farþega, sem kann að vera mismunandi o.s.frv. Ef til vill standa einhverjir farþegar frammi fyrir því að ákveða hvort þeir stytti ferð sína til að nýta sér heimflutninginn eða ljúki ferð eins og þeir eiga rétt á. Ef þeir kjósa að ljúka ferð þá verða þeir að koma sér sjálfir heim og leggja út fyrir heimferðinni og öðrum kostnaði sem af hlýst.
 • Ferðamálastofa leggur mikið upp úr því að farþegar séu vel upplýstir um gang mála. Haft verður samband við farþegana, eftir því sem mögulegt er, til að greina frá ákvörðun Ferðamálastofu, stöðu mála og framvindu og þeim bent á heimasíðu Ferðamálstofu, þar sem nauðsynlegar upplýsingar verða um réttindi farþega, tengla, símanúmer og kröfulýsingar. Fararstjórar á hverjum stað verða einnig virkjaðir, eftir því sem aðstæður leyfa, svo flæði upplýsinga verði sem best.

c. Uppgjör við heimkomu – hvernig tryggingarfé er sótt

 • Eftir heimkomu geta þeir sem telja sig eiga kröfu á hendur ferðaskrifstofunni vegna alferða/pakkaferða lýst kröfum sínum á hendur ferðaskrifstofunni.
 • Ferðamálastofa lætur birta áskorun um kröfulýsingu í Lögbirtingarblaðinu, í dagblaði og á heimasíðu Ferðamálastofu.
 • Frestur til að lýsa kröfum er 2 mánuðir eða 60 dagar frá birtingu áskorunar og verða kröfur að hafa verið lagðar fram innan þess tíma. Kröfum á að beina til Ferðamálastofu, Hafnarstræti 91, 600 Akureyri.
 • Með kröfulýsingum skulu fylgja nauðsynleg sönnunargögn um kröfuna s.s. farseðlar og kvittanir. Ferðamálastofa ákveður hvaða gögn eru fullnægjandi sem sönnun um kröfu.
 • Farþegum í alferð skal gert kleift að ljúka ferð sinni. Í því felst að allt það sem viðskiptavinur hefur þegar greitt og er í samræmi við fyrirfram ákveðna alferð, hvort sem um flutning, gistingu eða aðra fyrirfram greidda hluta ferðar er að ræða, skal greiða af tryggingarfé svo að honum sé kleift að ljúka ferð sinni. Ekki er hins vegar skylt að greiða það sem viðskiptavinur kaupir aukalega, þ.e. hluta ferðar sem ekki teljast til fyrirfram ákveðinnar alferðar. Hafi tryggingarfé verið notað til að gera viðskiptavini kleift að ljúka alferð í samræmi við upphaflegan samning eru frekari kröfur ekki teknar til greina.
 • Þegar um heimflutning farþega er að ræða fyrir milligöngu Ferðamálastofu áður en alferð er lokið, skal aðeins greiddur sá hluti alferðarinnar er viðskiptavini tókst ekki að ljúka.
 • Hafi tryggingarfé verið notað til að gera viðskiptavini kleift að ljúka alferð í samræmi við upphaflegan samning eru frekari kröfur ekki teknar til greina.
 • Einungis beint fjárhagslegt tjón af alferð skal greitt af tryggingarfé ferðaskrifstofu en ekkert tjón sem rekja má til hugsanlegra óþæginda eða miska.

2. Staða viðskiptavina sem hafa greitt alferð að fullu eða að hluta og alferð er ekki hafin þegar ferðaskrifstofa verður gjaldþrota

a. Upplýsingar til viðskiptavina
Þegar tilkynning berst Ferðamálastofu um gjaldþrot/rekstrarstöðvun ferðaskrifstofu birtir Ferðamálastofa tilkynningu þess efnis á heimasíðu sinni, www.ferdamalastofa.is. Á heimasíðunni verður einnig að finna nauðsynlegar upplýsingar fyrir viðskiptavini ferðaskrifstofunnar. Einnig má nálgast frekari upplýsingar hjá Ferðamálastofu í síma + 354-535-5500 eða í gegnum netfangið nanna@ferdamalastofa.is Símatími utan opnunartíma mun vísa á annað númer.
Eftir því sem unnt er verður skilaboðum komið til farþega um ástand mála í tölvupósti.

b. Þeir sem hafa greitt alferð að fullu og ferð er ófarin
Viðskiptavinur sem hefur greitt alferð hjá ferðaskrifstofu skal fá endurgreitt það fé sem hann hefur greitt, hvort sem endanlegur samningur um alferðina hefur komist á eða ekki, enda leggi hann fram fullnægjandi sönnunargögn um innborgun.

c. Þeir sem hafa greitt alferð að hluta og ferð er ófarin
Þeir sem hafa greitt alferð að hluta og ekki hafið ferð skulu fá endurgreitt það fé sem þeir hafa þegar greitt.

d. Hvernig er tryggingaféð sótt

 • Þeir sem telja sig eiga kröfu á hendur ferðaskrifstofunni vegna alferða/pakkaferða geta lýst kröfum sínum á hendur ferðaskrifstofunni.
 • Ferðamálastofa lætur birta áskorun um kröfulýsingu í Lögbirtingarblaðinu, í dagblaði og á heimasíðu Ferðamálastofu.
 • Frestur til að lýsa kröfum er 2 mánuðir eða 60 dagar frá birtingu áskorunar og verða kröfur að hafa verið lagðar fram innan þess tíma. Kröfum á að beina til Ferðamálastofu, Hafnarstræti 91, 600 Akureyri.
 • Með kröfulýsingum skulu fylgja nauðsynleg sönnunargögn um kröfuna s.s. farseðlar og kvittanir. Ferðamálastofa ákveður hvaða gögn eru fullnægjandi sem sönnun um kröfu.

Frekari upplýsingar eru veittar hjá Ferðamálastofu í síma +354-535-5500 eða í gegnum netfangið nanna@ferdamalastofa.is 

Ferðamálastofa 02.04.2009

 

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?