Reglur um bókhald og reikningsskil ferðaskrifstofa

1. gr.
Markmið, gildissvið og framkvæmd.

Markmiðið með þessum reglum er að tryggja að fyrir liggi nauðsynlegar upplýsingar til að hafa eftirlit með að tryggingar ferðaskrifstofa vegna sölu alferða séu í samræmi við lög um skipan ferðamála nr. 73/2005 en sala alferða er tryggingarskyld starfsemi.

Reglurnar taka til allra þeirra sem fengið hafa leyfi Ferðamálastofu til reksturs ferðaskrifstofu sbr. lög um skipan ferðamála nr. 73/2005, hér eftir nefndir leyfishafar.

Ferðamálastofa leggur mat á fjárhæð tryggingar á grundvelli fyrirliggjandi gagna, og er heimilt að leita umsagnar löggilts endurskoðanda.

2. gr.
Bókhaldskerfi.

Bókhaldskerfi leyfishafa skal vera með skipulegum hætti og í samræmi við lög um bókhald á hverjum tíma. Þetta felur m.a. í sér að fyrir á að liggja skrifleg lýsing á skipulagi og uppbyggingu bókhaldskerfisins. Ef leyfishafar hafa með höndum fjölþætta starfsemi skal deildarskipta bókhaldslykli þannig að sala alferða sé aðgreind frá öðrum rekstri.

3. gr.
Ársreikningur.

Við gerð ársreiknings skal semja sérgreindan rekstrarreikning yfir sölu alferða. Öllum rekstrarkostnaði skal skipt á rekstrarþætti og í skýringum með ársreikningi skal gera grein fyrir þeim aðferðum sem notaðar eru til að heimfæra tekjur og kostnað á rekstrarþætti. Ef breytingar verða á þessum aðferðum frá fyrra ári skal gera sérstaka grein fyrir þeim.

4. gr.
Tekjur.

Tekjur af sölu alferða skal færa þegar til þeirra hefur verið unnið og þjónustan í meginatriðum verið innt af hendi. Gæta skal þess sérstaklega að bókfæra tekjur réttilega á mánuði innan ársins. Skiptingu tekna á mánuði á að vera hægt að lesa úr bókhaldskerfinu fyrir hvern tekjulykil í reikningslykli.

Tekjur af sölu alferða skal í bókhaldi haldið aðgreindum frá öðrum tekjum og þær bókfærðar á sérstaka reikningslykla. Ávallt skal liggja skýrt fyrir á hvaða reikningslykla tekjur af sölu alferða eru færðar.

5. gr.
Upplýsingagjöf.

Fyrir lok 1. október ár hvert skulu leyfishafar skila Ferðamálastofu eftirfarandi gögnum:

a) Árituðum ársreikningi síðasta rekstrarárs sakv. lögum um ársreikninga nr. 3./2006.

b) Yfirliti yfir mánaðarlega veltu síðasta rekstrarárs þar sem áætluð velta vegna sölu alferða er sérgreind. Yfirlitið skal staðfest af löggiltum endurskoðanda leyfishafa.

c) Yfirliti yfir áætlaðar mánaðarlegar rekstrartekjur yfirstandandi árs þar sem áætluð velta vegna sölu alferða er sérgreind.

d) Staðfestingu endurskoðanda leyfishafa um að bókhaldskerfi sé í samræmi við ákvæði þessara reglna.

6. gr.
Mat á tryggingarfjárhæð.

Mat á tryggingarfjárhæð skal fara fram hjá Ferðamálastofu en áður er henni heimilt að leita umsagnar löggilts endurskoðanda. Við matið skal endurskoðandi hafa óhindraðan aðgang að bókhaldsgögnum og bókhaldskerfi leyfishafa.

7. gr.
Gjaldtaka.

Ferðamálastofu er heimilt að taka gjöld af leyfishafa sem rennur til Ferðamálastofu til að standa straum af eftirliti vegna laganna og skal fjárhæð gjaldsins nema allt að þrjátíu þúsund krónum á hvern leyfishafa á ári. Gjöldin eiga að standa undir kostnaði af bókhaldsrannsóknum og öðru því sem nauðsynlegt er til að sannreyna fjárhæð tryggingar á hverjum tíma.

 

8. gr.
Gildistaka.

Reglur þessar, sem settar eru samkvæmt 2. mgr. 17. gr. laga um skipan ferðamála, nr. 73/2005, með síðari breytingum, öðlast gildi 1. desember 2015.


Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu, 28. október 2015.
F. h. iðnaðar- og viðskiptaráðherra, Valgerður Rún Benediktsdóttir.

 

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?