Leiðbeiningar til ferðamanna um kröfur í tryggingarfé

Þeir sem telja sig eiga kröfu í tryggingarfé ferðaskrifstofu vegna kaupa á pakkaferð þurfa að gera kröfu í tryggingarféð.

Tryggingarfé ferðaskrifstofu er ætlað að endurgreiða það fé sem farþegar hafa greitt vegna kaupa á pakkaferð eða ef við á vegna samtengdrar ferðatilhögunar.

Skilgreiningu á pakkaferð má sjá hér

Skilgreiningu á samtengdri ferðatilhögun má sjá hér

Tryggingin tryggir aðeins endurgreiðslu sé um pakkaferð eða samtengda ferðatilhögun að ræða en ekki er keypt er stök ferðatengd þjónusta s.s. stakur flugmiði eða stök hótelgisting. Í slíkum tilfellum verður kröfuhafi að gera kröfu í þrotabú viðkomandi eða beina kröfum að fyrirtækinu.

Krafa í tryggingarfé er send rafrænt í gegnum þjónustugátt Ferðamálastofu á www.ferdamalastofa.is á þar til gerðu eyðublaði ásamt fylgigögnum.

Kröfur verða að vera skriflegar og með þeim skulu fylgja fullnægjandi gögn til sönnunar um kröfuna, svo sem ferðalýsing, kvittanir fyrir greiðslu eða millifærslu. Ferðamálastofa ákveður hvaða gögn eru fullnægjandi sem sönnun kröfu.

Frestur til að senda kröfu í tryggingarfé er 60 dagar frá birtingu innköllunar í fjölmiðlum. Krafa þarf að berast innan kröfulýsingarfrests. Kröfur sem berast eftir þann tíma eru ekki teknar til greina.

Komi til þess að krafa er gerð í tryggingu eru ekki greiddir vextir eða annar kostnaður vegna kröfugerðar.

Telji Ferðamálastofa að frekari gagna sé þörf þá verður haft samband við kröfuhafa.

Frekari upplýsingar má finna á vef Ferðamálastofu, www.ferdamalastofa.is. Einnig er hægt að senda fyrirspurnir á netspjall stofnunarinnar og á krofur@ferdamalastofa.is.

Kröfuhöfum er tilkynnt skriflega um ákvörðun Ferðamálastofu. Úrvinnsla krafna getur tekið mislangan tíma en það ferð eftir því hversu umfangsmikil niðurfellingin er og hversu margar kröfur berast.

Ferðamálastofa sér um uppgjör krafna og greiðir út samþykktar kröfur. Niðurstöður Ferðamálastofu eru kæranlegar til atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins, Skúlagötu 4, 150 Reykjavík. Kærufrestur er 4 vikur frá dagsetningu ákvörðunarinnar.

Kröfuhafar eru einnig hvattir til að kanna rétt sinn til endurgreiðslu hjá sínu kortafyrirtæki eða tryggingarfélagi.