Ferðatryggingasjóður

Ferðatryggingasjóði var komið á fót í ágúst 2020. Um sjóðinn gilda lög um pakkaferðir og samtengda ferðatilhögun nr. 95/2018 og reglugerð nr. 812/2021. Sjóðurinn er sjálfseignarstofnun sem hefur það hlutverk að tryggja hagsmuni ferðamanna sem keypt hafa pakkaferð eða samtengda ferðatilhögun sem ekki er framkvæmd í samræmi við samning vegna ógjaldfærni eða gjaldþrots seljanda.

Ferðatryggingasjóðurinn byggir á sjóðsfyrirkomulagi, sem samanstendur af stofngjaldi og iðgjaldi, og ábyrgðum sem hver og ein ferðaskrifstofa leggur fram.  Komi til greiðslna krafna greiðir Ferðatryggingasjóður samþykktar kröfur óháð fjárhæð tryggingarinnar sem viðkomandi ferðaskrifstofa leggur fram. Kostnaður sem til fellur greiðist af tryggingu viðkomandi, s.s. birting innköllunar krafna. Sjóðurinn á síðan kröfu í tryggingu viðkomandi ferðaskrifstofu og er tryggingin innkölluð að hluta eða að fullu eftir því hver heildarfjárhæð samþykktra krafna er. Ef heildarfjárhæð krafna sem sjóðurinn greiðir er lægri en fjárhæð fyrirliggjandi tryggingar er tryggingin innkölluð að hluta, þ.e. kröfufjárhæðin ásamt kostnaði við uppgjör en ef kröfufjárhæð er hærri en fyrirliggjandi trygging er tryggingin innkölluð í heild. 

Lögum samkvæmt er lágmarkseign sjóðsins 100 milljónir kr. Nái heildareign sjóðsins ekki lágmarki er stjórn sjóðsins heimilt að hækka iðgjald aðila að sjóðnum þar til sjóðurinn hefur náð lágmarksstærð eða þar til skuldbindingar sjóðsins eru að fullu greiddar. Við ákvörðun um hækkun iðgjaldsins skal taka mið af árlegri veltu aðila að sjóðnum. Hrökkvi heildareignir sjóðsins ekki til að standa við greiðsluskyldu hans vegna krafna ferðamanna er sjóðnum heimilt að taka lán svo að heildareignir sjóðsins nái lágmarki.

Ferðatryggingasjóði er aðeins heimilt að ávaxta fé sitt á innlánsreikningum í viðskiptabanka eða hjá Seðlabanka Íslands eða í fram- og auðseljanlegum fjármálagerningum með ábyrgð ríkissjóðs. Arion banki er viðskiptabanki sjóðsins. Ávöxtun hans er í ríkisbréfum með 1,5-6,5% vöxtum og á innlánsreikningi á 0,15% vöxtum.

Hér má nálgast upplýsingar um rekstrarstöðu sjóðsins skv. ársreikningi fyrsta starfsárs, 2020. (Væntanlegt)

Með breytingu á eldra tryggingakerfi yfir í sjóðsfyrirkomulag varð til samtryggingakerfi ferðaskrifstofa. Með því koma á fót slíku sjóðsfyrirkomulagi var hægt að lækka tryggingafjárhæðir ferðaskrifstofa umtalsvert og var horft til þess að tryggingafjárhæðir yrðu um 10-12% af tryggingafjárhæðum skv. eldra kerfi. Stærstu ferðaskrifstofurnar munu, vegna umsvifa sinna, bera hitann og þungann af sjóðnum þar sem iðgjöld eru hlutfall af tryggingafjárhæðum en á móti kemur að tryggingafjárhæðir þeirra hafa lækkað hlutfallslega meira en hjá öðrum umsvifaminni ferðaskrifstofum frá því sem áður var.

Þar sem tryggingafjárhæðir eru aðeins hluti af því sem áður var eru alltaf líkur á því að kröfur falli á sjóðinn þar sem framlögð trygging dugar ekki til að standa undir samþykktum kröfum.

 

Við ákvörðun um fjárhæð tryggingar ber að taka mið af fjárhagsstöðu seljanda og áhættu af rekstri hans. Sé talið að sérstök áhætta sé af rekstri seljanda og/eða líkur eru á að sjóðurinn geti orðið fyrir tjóni er heimilt að beita hækkunarheimild og krefjast hærri trygginga. Til að gæta jafnræðis og samræmis við beitingu hækkunarheimildarinnar hafa verið sett sett hlutlæg viðmið sem byggjast á rekstrarstöðu ferðaskrifstofa. Ef hlutfall veltufjár er undir 1,5 og/eða hlutfall eiginfjár er lægra en 20%  er lagt álag á útreiknaða tryggingafjárhæð skv. framlögðum gögnum. Álagið getur minnst orðið 13% og mest 80%. Iðgjaldið reiknast af ákvarðaðri tryggingafjárhæð og hafi álagi verið beitt tekur iðgjaldið mið af því.

Varðandi skuldbindingar sem rekja má til Covid-19 tímans þá voru þær aðallega í formi sérstakra inneigna vegna aflýstra/afpantaðra ferða. Slíkar inneignir reiknuðust ekki inn í iðgjaldið þrátt fyrir að þær hafi komið til hækkunar að ákvarðaðri tryggingafjárhæð. Ástæða þess var að eðlilegt þótti að slíkar skuldbindingar, sem stofnað var til fyrir stofnun Ferðatryggingasjóðs, féllu á ferðaskrifstofurnar sjálfar þar til þjónustan hafði verið afhent eða endurgreidd.

Í venjulegu árferði ættu iðgjaldagreiðslur duga til að standa við greiðsluskyldu sjóðsins vegna gjaldþrota ferðaskrifstofa en í undantekningartilfellum við stærri gjaldþrot mun uppsöfnuð eign sjóðsins þurfa að standa að baki greiðslum til ferðamanna.