Árleg skil ferðaskrifstofa

Um tryggingar seljenda pakkaferða og samtengdrar ferðatilhögunar gilda lög um pakkaferðir og samtengda ferðatilhögun nr. 95/2018 og reglugerð nr. 150/2019.

Tryggingarskyld velta

Sala pakkaferða og samtengdrar ferðatilhögunar er tryggingaskyld. Allir sem selja pakkaferðir og samtengda feraðtilhögun verða að hafa tryggingar fyrir slíkri sölu.

Kveðið er á um fyrirkomulag tryggingarinnar í reglugerð um tryggingar vegna sölu pakkaferða og samtengdrar ferðatilhögunar líkt og farið er nánar yfir lið fyrir lið hér að neðan.

Hvenær tryggingarskylda er fyrir hendi

Pakkaferðir
Allar greiðslur sem seljandi pakkaferða eða samtengdrar ferðatilhögunar, móttekur frá ferðamanni eru tryggingarskyldar. Seljandi pakkaferðar getur verið skipuleggjandi eða smásali.

Skipuleggjandi
Tryggingarskylda fyrir hendi.
Skipuleggjandi sem setur saman og selur pakkaferðir beint til ferðamanna er tryggingarskyldur.
Skipuleggjandi er tryggingarskyldur vegna pakkaferða sem smásali selur fyrir hans hönd í umboðssölu.

Undanþága frá tryggingarskyldu
Skipuleggjandi er ekki tryggingarskyldur ef hann getur sýnt fram á að smásalinn uppfylli tryggingaskyldu fyrir þeim ferðum sem smásalinn selur. Skipuleggjandi er ekki tryggingarskyldur ef smásali selur pakkaferðir skipuleggjandans í endursölu. Tryggingarskyldan hvílir þá á smásalanum.

Smásali
Smásali sem selur pakkaferð fyrir skipuleggjanda getur gert það í umboðssölu
Smásali sem selur pakkaferð fyrir hönd skipuleggjanda í umboðssölu er ekki tryggingarskyldur. Tryggingarskyldan hvílir á skipuleggjandanum nema samið sé um annað.
Aðili sem selur pakkaferðir, samsetta af skipuleggjanda, í endursölu í eigin nafni telst skipuleggjandi og er þar með tryggingarskyldur.

Samtengd ferðatilhögun
Allar greiðslur sem seljandi, sem hefur milligöngu um samtengda ferðatilhögun, hefur móttekið frá ferðamanni teljast til tryggingarskyldrar veltu.
Tryggingarskylda er ekki fyrir hendi ef seljandi, sem hefur milligöngu um samtengda ferðatilhögun, móttekur ekki greiðslur frá ferðamanninum.

Bókhald

Bókhald skal vera í samræmi við lög um bókhald á hverjum tíma.

Tekjur og gjöld vegna sölu pakkaferða og samtengdrar ferðatilhögunar skal færa þegar til þeirra hefur verið unnið og þjónustan í meginatriðum verið innt af hendi.

Sala pakkaferða og samtengdrar ferðatilhögunar skal vera aðgreinanleg frá öðrum rekstri í bókhaldi aðila ef seljandi hefur  með höndum fjölþætta starfsemi.

Gæta skal þess sérstaklega að bókfæra tekjur réttilega á mánuði innan ársins.

Skiptingu tekna og gjalda á mánuði skal vera hægt að lesa úr bókhaldskerfinu á aðgreinanlegan hátt.

 Útreikningur tryggingar og fjárhæð

Ferðamálastofa tekur ákvörðun um fjárhæð tryggingar og er heimilt að leita umsagnar endurskoðanda við mat á fjárhæð tryggingar.

Ferðamálastofa innheimtir gjöld, kr. 25.000, til að standa straum af kostnaði vegna mats á tryggingafjárhæð og umsýslu vegna tryggingaskyldu. Kostnaðurinn greiðist af leyfishafa

Fárhæð tryggingar:

Tryggingarfjárhæð (T) er reiknuð út frá eftirfarandi reiknireglu: T=G*(N/30)+G*h+G*d/30.

 • (G) = grunntala sem er meðaltal heildarveltu tveggja tekjuhæstu mánaða síðasta og yfirstandandi rekstrarárs,
 • (N) = meðalfjöldi daga frá fullnaðargreiðslu þar til ferð hefst,
 • (h) = meðalhlutfall staðfestingargreiðslu af heildargreiðslu
 • (d) = meðallengd ferða í dögum.

Gildin skulu fundin fyrir síðasta og yfirstandandi rekstrarár. Niðurstaða síðasta og yfirstandandi rekstrarárs skulu bornar saman og gildir sú tryggingarfjárhæð sem hærri er.Fjárhæð tryggingar skal aldrei vera lægri en 1.000.000 kr.Við mat á fjárhæð tryggingar er heimilt að undanskilja tímabundna aukna veltu síðasta rekstrarárs sem tilkynnt var Ferðamálastofu. 

Frestur vegna skila á gögnum

Eigi síðar en 1. apríl ár hvert skulu leyfishafar skila Ferðamálastofu gögnum og upplýsingum vegna endurskoðunar á tryggingarfjárhæð. 

Gögn sem leggja þarf fram vegna endurskoðunar á fjárhæð tryggingar

Tryggingarfjárhæð er endurskoðuð árlega.

Leggja skal fram eftirfarandi gögn og upplýsingar við endurskoðun tryggingarfjárhæðar:

 • Ársreikning í samræmi við lög um ársreikninga, áritaðan af endurskoðanda eða eftir því sem við á skoðunarmanni. Örfélögum er heimilt að skila rekstraryfirliti og efnahagsyfirliti byggðum á skattframtali félagsins.
   
 • Yfirlit yfir mánaðarlega veltu síðasta rekstrarárs þar sem velta vegna sölu pakkaferða annars vegar og samtengdrar ferðatilhögunar hins vegar er sérgreind frá annarri veltu. Hafi tryggingaskyldur aðili tilkynnt Ferðamálastofu um tímabundna aukna veltu skal sú velta sérgreind frá annarri veltu. Yfirlitið skal staðfest af löggiltum endurskoðanda eða skoðunarmanni. Í tilviki örfélaga er framkvæmdastjóra heimilt að staðfesta yfirlitið.
   
 • Yfirlit yfir áætlaða mánaðarlega veltu yfirstandandi rekstrarárs þar sem áætluð velta vegna sölu pakkaferða annars vegar og samtengdrar ferðatilhögunar hins vegar er sérgreind.
   
 • Staðfestingu löggilts endurskoðanda, skoðunarmanns eða, eftir atvikum, framkvæmdastjóra, um að bókhald tryggingaskylds aðila sé fært  samkvæmt reglugerð um tryggingar vegna sölu pakkaferða og samtengdrar ferðatilhögunar.
   
 • Yfirlit síðasta og yfirstandandi rekstrarárs yfir hlutfall staðfestingargreiðslna af heildarverði pakkaferða og fjölda daga fyrir upphaf pakkaferða sem þær eru fullgreiddar.
   
 • Yfirlit síðasta og yfirstandandi rekstrarárs yfir fjölda pakkaferða skipt niður á mánuði þar sem fram komi söluverð þeirra og lengd, fjöldi ferðamanna og hvort smásali selji pakkaferðir fyrir hönd skipuleggjanda og, ef svo er, upplýsingar um smásalann, yfirlit yfir þær pakkaferðir sem hann selur og hvor aðila uppfyllir tryggingaskyldu vegna þeirra pakkaferða sem smásalinn selur.

 • Upplýsingum um hvort tryggingaskyldur aðili framkvæmir einhverja þá ferðatengdu þjónustu sem er hluti pakkaferðar eða samtengdrar ferðatilhögunar sem hann selur.

Form fyrir gagnaskil má finna hér

Greining á veltu rauntölur 2018

Greining á veltu áætlun 2019

Staðfesting

Leiðbeiningar við útfyllingu excel skjala

Rafræn skil á gögnum

Skila þarf umbeðnum gögnum rafrænt í gegnum þjónustugátt Ferðamálastofu á þar til gerðum eyðublöðum ásamt fylgögnum. Ekki er tekið við gögnum sem send eru í tölvupósti. Þess er sérstaklega óskað að gögnin séu send á excelforminu.

Skila skal inn:

 1. Ársreikningi fyrir árið 2018 eða rekstrar,- og efnahagsyfirliti fyrir árið 2018 byggðu á skattframtali. 
   
 2. Yfirliti yfir staðfesta tryggingarskylda veltu ársins 2018 ásamt upplýsingum um veltu sem undanþegin er tryggingarskyldu.
   
 3. Yfirliti yfir áætlaða tryggingarskylda veltu ársins 2019 ásamt ásamt upplýsingum um veltu sem undanþegin er tryggingarskyldu.
   
 4. Staðfestingu endurskoðanda/skoðunarmanns um að tryggingarskyld velta ársins 2018 sé rétt eins og hún er sett fram og að bókhald samræmist reglugerð um tryggingar vegna sölu pakkaferða og samtengdrar ferðatilhögunar nr. 150/2019

Frekari upplýsingar um tryggingar seljenda pakkaferða og samtengdrar ferðatilhögunar má finna á vef Ferðamálastofu, sjá hér. 

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?