Samkvæmt 3. mgr. 18. gr. laga um skipan ferðamála er ferðaskrifstofum skylt að senda Ferðamálastofu gögn sem áskilin eru samkvæmt reglum nr. 1100/2005 um bókhald og reikningsskil ferðaskrifstofa fyrir 1. október ár hvert vegna endurskoðunar á fjárhæð trygginga ferðaskrifstofa vegna sölu alferða.
Þessi gögn eru:
- Áritaður ársreikningur síðasta rekstrarárs skv. lögum nr. 3/2006 um ársreikninga.
- Yfirlit yfir mánaðarlega veltu síðasta rekstrarárs þar sem áætluð velta vegna sölu alferða er sérgreind og heildarveltan afstemmd við ársreikning. Yfirlitið skal staðfest af löggiltum endurskoðanda leyfishafa.
- Yfirlit yfir áætlaðar mánaðarlegar rekstrartekjur yfirstandandi árs þar sem áætluð velta vegna sölu alferða er sérgreind.
- Staðfesting endurskoðanda leyfishafa um að bókhaldskerfi sé í samræmi við ákvæði þessara reglna.
Meðfylgjandi Excel-skjal skal nota til að standa skil á gögnum sem áskilin eru í liðum 2, 3 og 4 hér að ofan. Athugið að vista skjalið á eigin tölvu áður en byrjað er að vinna með það.
Árleg skil ferðaskrifstofu samkvæmt lögum nr. 73/2005 um skipan ferðamála
Fjárhæð tryggingar vegna sölu alferða skv. 14. gr. laga nr. 73/2005 um skipan ferðamála skal ákvörðuð samkvæmt einum eftirfarandi liða og skal sú niðurstaða gilda sem gefur hæsta tryggingu:
a. 60% af veltu tveggja söluhæstu mánaðanna í röð,
b. 35% af veltu fjögurra söluhæstu mánaðanna í röð eða
c. 15% af heildarveltu á ári.
Trygging skal þó aldrei nema lægri fjárhæð en 1 millj. kr.
Ferðamálastofu er heimilt að krefjast hærri tryggingar í þeim tilfellum þegar um sérstaklega áhættusaman rekstur er að ræða eða að öðru leyti er ljóst að trygging samkvæmt lögum þessum mun ekki nægja komi til gjaldþrots eða rekstrarstöðvunar ferðaskrifstofu.