Upplýsingar og umsóknaferill

Samkvæmt lögum um skipan ferðamála  merkir Ferðaskipuleggjandi aðili, hvort sem er einstaklingur eða lögaðili sem, hvort sem er að eigin frumkvæði eða eftir beiðni viðskiptavinar, setur saman, býður fram og selur í atvinnuskyni eftirfarandi ferðatengda þjónustu fyrir almenning:  

a. Skipulagningu ferða hópa og einstaklinga, innan lands og erlendis.
b. Skipulagningu funda, sýninga og ráðstefna og hvers kyns þjónustu því tengda, innan lands sem utan.
c. Hvers konar umboðs- og endursölu farmiða með skipum, bifreiðum, flugvélum eða járnbrautum.
d. Dagsferðir sem fela í sér ýmiss konar afþreyingu og frístundaiðju, svo sem hestaferðir, vélsleðaferðir, fljótasiglingar og ævintýraferðir með sérútbúnum ökutækjum.
e. Ferðir og veitingar sem hluta af veittri þjónustu.

Hver sá sem hyggst starfa sem ferðaskipuleggjandi eða ferðaskrifstofa skal hafa til þess leyfi Ferðamálastofu. Leyfisbréf skal gefið út af Ferðamálastofu og skal leyfishafi hafa það sýnilegt fyrir viðskiptavini á starfsstöð sinni. Ferðamálastofa skal eiga myndrænt auðkenni sem leyfishafi skal nota í hvers kyns auglýsingum um starfsemi sína og á heimasíðu sinni. Í sérstökum tilvikum er Ferðamálastofu heimilt að veita undanþágu frá ákvæði þessu og skal leyfishafi sækja um slíka undanþágu til Ferðamálastofu. Leyfi til reksturs ferðaskipuleggjanda og ferðaskrifstofu er ótímabundið. Þeim einum er heimilt að hafa orðið ferðaskipuleggjandi eða ferðaskrifstofa í nafni starfsemi sinnar sem hlotið hefur leyfi Ferðamálastofu.

Starfsemi ferðaskipuleggjanda og ferðaskrifstofu skal rekin á fastri starfsstöð sem opin skal almenningi á tilgreindum tíma. Heimilt er þó að víkja frá þessu skilyrði ef þjónusta er einungis rekin á rafrænan hátt og skal leyfishafi uppfylla skilyrði 6. gr. laga nr. 30/2002, um rafræn viðskipti og aðra rafræna þjónustu, um það sem koma skal fram á heimasíðu.

Til að öðlast leyfi þarf umsækjandi eða forsvarsmaður umsækjanda, ef hann er lögaðili, að uppfylla eftirfarandi skilyrði:

a. hafa búsetu á Íslandi
b. hafa náð 20 ára aldri
c. vera lögráða og hafa ekki á síðustu fjórum árum í tengslum við atvinnurekstur hlotið dóm fyrir refsiverðan verknað samkvæmt almennum hegningarlögum eða lögum um hlutafélög, einkahlutafélög, bókhald, ársreikninga, gjaldþrot eða opinber gjöld né lögum um skipan ferðamála
d. hafa forræði á búi sínu
e. hafa ekki verið sviptur ferðaskipuleggjanda- eða ferðaskrifstofuleyfi á síðustu þremur árum frá umsókn.
f. leggja fram staðfestingu um ábyrgðartryggingu frá vátryggingafélagi.

Sjá nánar lög um skipan ferðamála 

Ábyrgðartygging/frjáls ábyrgðartrygging

Ferðaskipuleggjandi þarf að vera með ábyrgðartryggingu frá vátryggingarfélagi. Ábyrgðartryggingunni er ætlað að tryggja viðskiptavini leyfishafa á meðan á ferð stendur verði þeir fyrir líkamstjóni eða tjón verður á munum í eigu viðskiptavina. Tryggingin þarf að vera í gildi á gildistíma leyfisins. Staðfestingu á tryggingunni þarf að leggja fram með umsókn.

Umsóknareyðublað

Sótt er um á Þjónustugátt Ferðamálastofu. Byrja þarf á að skrá sig inn með íslykli eða rafrænum skilríkjum í farsíma, æskilegt er að nota rafræn skilríki eða íslykil fyrirtækis. Þegar innskráningu er lokið skal velja flipann "Umsóknir".  Vakin er athygli á að í kaflann um umsækjanda skal skrá upplýsingar um þann aðia sem leyfði skal gefið út til, þ.e. ef leyfishafi er fyrirtæki skal skrá upplýsingar um það en ekki einstklinginn sem fyllir út umsóknina. Nánari leiðbeiningar um útfyllingu eru á eyðublaðinu.

Fylgigögn með umsókn um ferðaskipuleggjendaleyfi

 1. Skráningarvottorð úr fyrirtækjaskrá (ef um er að  ræða hlutafélag eða einkahlutafélag) eða firmaskrá (ef um er að ræða sameignarfélag, samlagsfélag eða einkafirma).
    a. Ef umsækjandi er einstaklingur og heiti ferðakrifstofu er annað en nafn hans þá þarf að skrá heitið í
        firmaskrá í því umdæmi sem atvinnustarfsemin fer fram.
    b. Ef umsækjandi er hlutafélag/einkahlutafélag og heiti er annað en nafn fyrirtækis þá þarf að skrá 
        heitið í fyrirtækjaskrá.
 2. Vottorð um skráningu hjáheitis í fyrirtækja- eða firmaskrá (ef við á).
 3. Búsetuvottorð vegna forsvarsmanns, sbr. a-lið 2. mgr. 9. gr. laga nr. 73/2005 um skipan ferðamála. 
  Vottorðið má fá hjá Þjóðskrá eða íbúaskrá sveitarfélags lögheimilis forsvarsmanns.
 4. Staðfesting á búsforræði forvarsmanns, sbr. d-lið 2. mgr. 9. gr. laga nr. 73/2005 um skipan ferðamála. 
  Vottorðið fæst hjá héraðsdómi í  umdæmi  lögheimilis forsvarsmanns.
 5. Sakavottorð fyrir forsvarsmann, sbr. c-lið 2. mgr. 9. gr. laga nr. 73/2005 um skipan ferðamála. 
  Vottorðið fæst hjá lögreglustjóra í  umdæmi  lögheimilis forsvarsmanns.
 6. Staðfesting um ábyrgðartryggingu frá vátryggingarfélagi. Ábyrgðartryggingunni er ætlað að tryggja viðskiptavini leyfishafa á meðan á ferð stendur verði þeir fyrir líkamstjóni eða tjón verði á munum í eigu viðskiptavina. 
  Ath. trygging þarf að vera í gildi á gildistíma leyfisins.

Ath. Ferðamálastofa getur, að fengnu samþykki umsækjanda, séð um að afla ofangreindra gagna, að lið 2 og 5 frátöldum. Sjá  nánar á umsóknarformi.

Nánari upplýsingar

Elín S. Ingvarsdóttir  

Elín Svava Ingvarsdóttir
verkefnastjóri
elin@ferdamalastofa.is