Upplýsingar og umsóknaferill

Skráningarskyld starfsemi samkvæmt lögum um skipulag ferðamála er öll starfsemi bókunarþjónustu og upplýsingamiðstöðva, hvort sem starfsemin er innt af hendi af einstaklingi, fyrirtæki eða félagi.

Bókunarþjónusta merkir starfræksla hvers kyns bókunarþjónustu til almennings, fyrir ferðaskipuleggjendur og ferðaskrifstofur, hvort sem er innan lands eða erlendis, þar með talin rafræn bókunarþjónusta.

Upplýsingamiðstöð merkir aðili sem stundar hlutlausa upplýsingagjöf til almennings. Upplýsingamiðstöð hvorki setur saman, býður til sölu né auglýsir ferðir eða aðra ferðatengda starfsemi.

Hver sá sem hyggst stunda starfsemi sem er skráningarskyld skal senda skriflega tilkynningu þess efnis til Ferðamálastofu. Ferðamálastofa gefur út skírteini til staðfestingar á að starfsemi hafi verið tilkynnt og uppfylli ákvæði laga þessara um tilkynningarskyldu. Þeim einum er heimilt að nota heitin bókunarþjónusta og upplýsingamiðstöð í nafni starfsemi er fellur undir lög um skipan ferðamála, sem hefur fengið útgefið skírteini frá Ferðamálastofu.

Ferðamálastofu er heimilt að fella skráðan aðila af skrá ef hinni skráðu starfsemi hefur verið hætt eða starfsemi er útvíkkuð þannig að hún falli undir skilgreiningu á ferðaskipuleggjanda eða ferðaskrifstofu. Ferðamálastofa úrskurðar ef ágreiningur rís um til hvaða flokks starfsemi heyrir.

Hér að neðan er tengill á umsóknareyðublað fyrir skráningu á bókunarþjónustu og/eða upplýsingamiðstöð. Formið er að fullu rafrænt og þarf ekki að prenta út.

Opna umsóknareyðublað