Fara í efni

Launagreiðslur í ferðaþjónustu

Í Mælaborði Ferðaþjónustunnar má nú nálgast skýrslu sem sýnir atvinnutekjuþróun innan ákveðinna svæða í íslenskri ferðaþjónustu undanfarin ár. Má þar meðal annars sjá meðaltekjur á hvern íbúa innan svæðanna, sem og hlutdeild tekna í ferðaþjónustu af heildartekjum í öllum atvinnugreinum.

Mjög mismunandi tekjur milli svæða

Líkt og má sjá í skýrslunni og á myndinni að ofan, eru tekjur á hvern íbúa mjög mismunandi milli svæða. Þeim mun dekkri sem svæðin eru í kortasjánni, því hærri eru tekjurnar. Voru hæstu tekjurnar í ferðaþjónustu 2019 til að mynda rúm 1.500.000 í Skaftafellssýslunum en einungis rúm 120.000 í Fjarðabyggð. Hlutfall tekna milli kynja er einnig mismunandi eftir svæðum. Í Reykjanesbæ voru tæp 63% allra tekna í ferðaþjónustu greidd til karla, en rúm 37% til kvenna árið 2019. Á Vestjörðum fyrir sama ár voru rúm 52% allra tekna í ferðaþjónustu greidd til kvenna, en tæp 48% til karla.

Tekjur í ferðaþjónustu aukist gífurlega síðastliðinn áratug

Tekjur í ferðaþjónustu á hvern íbúa hækkuðu um tæp 240% á landsvísu frá árunum 2012 til 2019. Minnst hækkuðu tekjurnar á Akranesi og í Hvalfirði um tæp 147% ásamt Akureyri en þar hækkuðu tekjurnar um tæp 160%. Mest hækkuðu tekjurnar í Skaftafellssýslum um tæp 458% og í Vestmannaeyjum um tæp 374%.