Fara í efni

Þjóðhagslíkön: Áhrif breytinga í ferðaþjónustunni á hagkerfið - og öfugt

Upptaka af fyrirlestri Ferðamálastofu og Hagrannsókna 19. mars 2024

Mynd: © Íslandsstofa

Ferðamálastofa og Hagrannsóknir, í samvinnu við Ferðaklasann, buðu upp á fyrirlestur um nýsmíðuð þjóðhagslíkön fyrir ferðaþjónustuna í Grósku hugmyndahúsi í Vatnsmýri.

Praktísk not í fyrirrúmi

Áhersla var á lýsingu líkananna á mannamáli og hvernig þau má nýta til greiningar og ákvarðanatöku hjá stjórnvöldum og öðrum hagaðilum. Með þeim er hægt að meta áhrif ýmissar þróunar lykilstærða á þjóðarbúið og ferðaþjónustuna og hvernig ólíkar ákvarðanir hins opinbera og annarra hagaðila kunna að hafa áhrif á heildina. Markmiðið með líkönunum er að efla greiningu á samspili áhrifaþátta, stefnumótun og ákvarðanir um aðgerðir opinberra aðila og annarra sem hag hafa af slíku, og þjóðhagsspár.

Kynning á árangri síðustu þriggja ára

Birgir Þór Runólfsson, Marías Gestsson og Eðvarð Ingi Erlingsson sáu um kynninguna fyrir hönd Hagrannsókna sf. Var þetta lokakynning. Hagrannsóknir hafa unnið að þessari líkanagerð sem verktaki hjá Ferðamálstofu síðustu þrjú ár og er nú grunnáfanga þessa verkefnis skv. samningi lokið. Framhald getur orðið á því, með það að markmiði að gera líkönin öflugri og notendavænni fyrir 3ja aðila, en ákvörðun hefur ekki verið tekin um það. Ferðamálastofa og Hagrannsóknir hafa á verktímanum reglulega birt áfangaskýrslur og haldið kynningar, sem sjá má á vef Ferðamálastofu hér.

Áhugaverð dæmi í fyrirlestrinum

Í fyrirlestri sínum fóru sérfræðingar Hagrannsókna yfir nokkur áhugaverð, raunhæf dæmi um metin áhrif breytinga í lykilstærðum á hagkerfið og ferðaþjónustuna. Þar á meðal má nefna að hin nýju líkön meta það sem svo að 5% minni eftirspurn erlendra ferðamanna eftir ferðalögum hingað til lands í fyrra hefði minnkað verga landsframleiðslu um 19,4 milljarða króna (0,64% samdráttur), aukið atvinnuleysi lítillega (0,13%) en verðbólga hefði haldist nánast óbreytt (-0,04%).

Áhrif 5% lægri erlendrar eftirspurnar 2023

Önnur dæmi sem fyrirlesarar tóku voru meðal annars:

  • Áhrif 1% meiri framleiðni í hagkerfinu á verga landsframleiðslu, virðisauka í ferðaþjónustu og virðisauka í öðrum atvinnugreinum
  • Áhrif 1% hækkunar á kostnaði í ferðaþjónustu á verga landsframleiðslu, vinnumarkað og kaupmátt launa
  • Áhrif 10% hækkunar flugfargjalda á sömu stærðir
  • Áhrif 10% verðhækkunar hjá hótelum og gistiheimilum innanlands á sömu stærðir

Skýrsluna má nálgast með því að smella á hnappinn að neðan:

Þjóðhagslíkan fyrir ferðaþjónustu 

Upptöku af erindinu má nálgast hér að neðan: