Fara í efni

Viðhorf Íslendinga til ferðamanna og ferðaþjónustu


Niðurstöður liggja nú fyrir úr nýlegri könnun um viðhorf Íslendinga til ferðamanna og ferðaþjónustu. Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands framkvæmdi könnunina fyrir Ferðamálastofu en hún er liður í rannsóknarverkefni um samfélagsleg þolmörk sem Ferðamálastofa stendur að í samstarfi við Rannsóknamiðstöð ferðamála og Háskólann á Hólum.

Spurningalistinn sem könnunin byggði á samanstóð af 39 spurningum um viðhorf til ferðaþjónustu og ferðamanna.

Áhrif ferðamannaÁhrif ferðamanna

Svarendur voru beðnir um að taka afstöðu til fullyrðinga um áhrif ferðamanna á samfélag og náttúru eins og sjá má á mynd hér til hliðar. Langflestir eru á því að ferðamenn efli hagkerfi (96%) og verslun í landinu (93%). Auk þess eru langflestir á að ferðamenn efli þjónustuframboð (90%) en rúmur fimmtungur telur þó að ferðamenn takmarki aðgengi annarra að þjónustu (22%). Langflestir eða 93% eru ennfremur á því að ferðamenn bæti við fjölbreytileika mannlífsins. Að mati 67% svarenda kenna ferðamenn okkur að meta eigið land og 61% eru á því að þeir stuðli að bættu aðgengi að náttúru landsins. Tæpur helmingur (47%) telur hins vegar að ferðamenn spilli náttúru landsins og 23% að þeir spilli upplifuninni af náttúru landsins. 

Álit á fjölda ferðamanna

Álit á fjölda ferðamannaUm tveir af hverjum þremur eru á því að fjöldi ferðamanna sé hæfilegur að sumri, 29% að hann sé of mikill og 6% að hann sé of lítill. Tæplega helmingur er hins vegar á því að fjöldi ferðamanna að vetri til sé of lítill, tæplega helmingur að hann sé hæfilegur og 3% að hann sé of mikill. Fólk búsett í kraganum í kringum höfuðborgarsvæðið og á landsbyggðinni fremur en höfuðborgarbúar töldu að fjöldi ferðamanna væri of lítill á veturna. 

Uppbygging ferðaþjónustu

Uppbygging ferðaþjónustuUm sex af hverjum tíu (59%) sem svöruðu eru á því að uppbygging ferðaþjónustu sé of hæg miðað við fjölgun ferðamanna, 22% að hún sé í takt við fjölgun ferðamanna og 13% að hún sé of hröð. Einhverjir (5%) eru hins vegar á því að uppbyggingin sé mismikil eftir því hvaða landshluti á í hlut. Höfuðborgarbúar og þeir sem búa í kraganum í kringum höfuðborgarsvæðið telja í meira mæli að uppbyggingin sé of hæg en þeir sem búa í öðrum landshlutum.

Viðhorf til ferðaþjónustu

Viðhorf til ferðaþjónustuNær allir telja ferðaþjónustu skipta máli. Nærri sjö af hverjum 10 (68%) telja ferðaþjónustu vera nokkuð mikilvæga í efnahagslífi landsins og tæplega þriðjungur hana vera undirstöðuatvinnuveg. Afar fáir (2%) telja hana hins vegar vera léttvæga eða skipta engu máli. Karlar telja mun frekar en konur að greinin sé undirstöðuatvinnugrein.

Framtíðarsýn og landkynning

Framtíðarsýn og landkynning

Þrír af hverjum fjórum (74%) telja að hið opinbera hafi ekki skýra framtíðarsýn fyrir íslenska ferðaþjónustu, 17% að hún sé til að hluta til en 9% eru á því að framtíðarsýnin sé skýr. Fleiri eru hins vegar á því að fyrirtækin í ferðaþjónustu hafi skýra framtíðarsýn (34%) eða hafi hana að hluta til (31%).

Á að efa landkynningu

Athygli vekur að yngsti aldurshópurinn (18-29 ára) telur að hið opinbera hafi skýra framtíðarsýn í meira mæli en þeir sem eldri eru. 

Skiptar skoðanir eru hins vegar um það hvort ríkið eigi að efla landkynningu til að laða fleiri gesti til landsins. Um helmingur (49%) er því sammála að ríkið eigi að efla landkynningu, 43% er því ósammála og 8% hvorki sammála né ósammála.

Tekjur af ferðamönnum

Þegar svarendur voru spurðir hversu miklar tekjur þjónusta við ferðamenn skapi þeirra sveitarfélagi sögðu 38% þær vera miklar, 40% nokkrar, 20% litlar og 3% engar. Hærra hlutfall svarenda á höfuðborgarsvæðinu telur ferðaþjónustu skapa miklar tekjur eða 43% á móti 24% svarenda í kraganum í kringum höfuðborgarsvæðið og 34% í öðrum landshlutum. Þegar spurt var nánar um hlutverk greinarinnar í hagkerfi landsins töldu 77% svarenda ferðaþjónustuna skapa fjölbreytt störf. Um fimmtungur (19%) var á því að ferðaþjónusta skapi vel launuð störf, 32% að hún skapi bæði vel og illa launuð störf og 49% að hún skapi illa launuð störf.

Gagnast til stefnumótunar

Sem fyrr segir er könnunin liður í viðameiri rannsókn á viðhorfum Íslendinga til atvinnugreinarinnar og stöðu Íslands sem áfangastaðar ferðamanna. Þrátt fyrir að niðurstöður gefi almennt til kynna jákvætt viðhorf gagnvart ferðaþjónustunni benda sum svör til þess að farið sé að bera á núningi sem Ferðamálastofu og öðrum sem að ferðaþjónustu koma er mikið í mun að verði ekki ferðaþjónustunni fjötur um fót til framtíðar. Niðurstöður könnunarinnar munu þannig m.a. gagnast til að móta stefnumarkandi aðgerðir ríkis og sveitarfélaga, til að greinin geti þróast í sátt við samfélag íbúa á hverjum stað.

Nánar um könnunina

Könnunin var framkvæmd sem símakönnun og var lögð fyrir dagana 2. október til 3. nóvember 2014. Úrtakið var 2000 manns og var það valið tilviljunarkennt úr Þjóðskrá. Nettó svarhlutfall var 59%. Framkvæmd og úrvinnsla var í höndum Félagsvísindastofnunar Háskóla Íslands, en spurningar voru mótaðar af rannsakendum með hliðsjón af fyrri rannsóknum á viðhorfi heimafólks til ferðamanna hérlendis og alþjóðlegra rannsókna á þróun áfangastaða.

Könnunina í heild má nálgast í meðfylgjandi skýrslu en þar eru lýsandi niðurstöður birtar í myndum og töflum sem sýna hlutföll og fjölda svara skipt niður eftir bakgrunnsþáttunum kyni, aldri, búsetu, lengd búsetu í sveitarfélagi, menntun, stöðu á vinnumarkaði og starfi.

Nánari upplýsingar veitir Ólöf Ýrr Atladóttir ferðamálastjóri olof@ferdamalastofa.is Sími: 535-5500

Könnunin í heild:

Viðhorf Íslendinga til ferðaþjónustu