Fara í efni

Vestnorden í 29. sinnn

Frá Vestnorden 2012.
Frá Vestnorden 2012.

Vestnorden Travel Mart ferðakaupstefnuna hófst í dag í Laugardalshöllinni. Hún er nú haldin í 29. sinn og er mikilvægasta kaupstefnan í ferðaþjónustu sem haldin er á Norður-Atlantshafssvæðinu. Rúmlega 600 gestir sækja kaupstefnuna í ár; ferðaþjónustuaðilar landanna þriggja auk kaupenda ferðaþjónustu frá öllum heimshornum.

Frummmælandi kaupstefnunnar er Peter Greenberg, margfaldur Emmy verðlaunahafi frá CBS fréttastofunni. Hann var útnefndur af Travel Weekly árið 2012 sem einn af áhrifamestu mönnum ferðaþjónustunnar ásamt þeim Bill Marriot og Richard Branson. Peter Greenberg er reglulegur gestur í þekktum sjónvarpsþáttum vestanhafs eins og Oprah Winfrey Show og The View. Greenberg sendir út frá Íslandi og mun taka nokkra góða Íslendinga tali fyrir þátt sinn sem síðar verður útvarpað í Bandaríkjunum.

Kaupstefnan fær aukið vægi á hverju ári í takt við aukinn fjölda ferðamanna að sögn Ingu Hlínar Pálsdóttur, forstöðumanns ferðaþjónustu og skapandi greina hjá Íslandsstofu. „Ísland, Grænland og Færeyjar eru allt áfangastaðir sem búa yfir einstökum tækifærum fyrir ferðamenn. Náttúran, fólkið og menningin eru eiginleikar sem áfangastaðirnir þrír deila að einhverju leyti og við finnum mikinn styrk í því að geta unnið saman á þessum vettvangi að því að kynna löndin saman. Löndin bjóða öll spennandi og fjölbreytta ferðaþjónustu sem fellur vel að þörfum okkar markhópa,“ segir Inga Hlín.

Íslandsstofa er framkvæmdaaðili ferðakaupstefnunnar í samstarfi við ferðamálasamstarf Norður-Atlantshafsins, en meginhlutverk þess er að móta sameiginlega stefnu í ferðamálum fyrir svæðið Grænland, Ísland og Færeyjar og styrkja ýmis verkefni sem efla ferðaþjónustu innan þess. Ferðakaupstefnan er haldin annað hvert ár á Íslandi og hin árin til skiptis í Færeyjum eða á Grænlandi.

Að ferðakaupstefnunni stendur North Atlantic Tourism Association (NATA), ferðamálasamstarf Norður-Atlantshafsins og samstarfsvettvangur Íslands, Færeyja og Grænlands á sviði ferðaþjónustu

Nánari upplýsingar veita:

Guðrún Birna Jörgensen, verkefnisstjóri hjá Íslandsstofu
Sími 511 4000 / Farsími 898-8749
Netfang: gudrunbirna@islandsstofa.is

Ingvar Örn Ingvarsson, verkefnisstjóri hjá Íslandsstofu
Sími 511 4000 / Farsími 659 1444
Netfang: ingvar@islandsstofa.is