Fara í efni

Verðlaun fyrir lokaverkefni um ferðamál

Lokaverkefni RMF
Dæmi um notkun korta en hér má sjá þéttleika ljósmynda sem ferðafólk tekur og deilir á vefnum.

Rannsóknamiðstöð ferðamála og Samtök ferðaþjónustunnar standa að verðlaunum fyrir framúrskarandi lokaverkefni um ferðamál sem unnið er af nemanda við háskóla hér á landi. Verðlaunin fyrir skólaárið 2014 voru afhent á aðalfundi SAF á dögunum og komu í hlut Willem Gerrit Tims.

Ný nálgun við kortlagningu á upplifun víðerna

Í ár komu 11 verkefni til greina en Willem skrifaði verkefni sitt við líf- og umhverfisvísindasvið HÍ. Það nefnist Ný nálgun við kortlagningu á upplifun óbyggðra víðerna. Tilviksrannsókn frá Vatnajökulsþjóðgarði. Willem kom hingað til lands á vegum svokallaðs GEM verkefnis sem styrkt er af Eramsus Mundus námsáætlun Evrópusambandsins. 

Landupplýsingakerfi nýtt á nýjan og frumlegan hátt

Í verkefni sínu nýtir Willem landupplýsingakerfi (GIS) á nýjan og frumlegan hátt til að meta stærð íslenskra víðerna. Hann setur mjög tæknilegt efni vel fram í ritgerðinni og skýrir mál sitt með góðum kortum og myndum. Sem gögn notar Willem meðal annars myndir sem ferðamenn hafa sett á vefinn, á Google Earth og myndasíður.

Rannveig Ólafsdóttir, prófessor við námsbraut í land- og ferðamálafræði við Háskóla Íslands var leiðbeinandi Willems, ásamt Þorvarði Árnasyni, forstöðumanni háskólaseturs Háskóla Íslands á Höfn.

Ritgerðina, sem skrifuð er á ensku, er hægt að skoða skemman.is: http://skemman.is/item/view/1946/18738

Nánar á vef Rannsóknamiðstöðvar ferðamála