Fara í efni

Upptökur frá ráðstefnu um ferðagönguleiðir

Göngufólk
Nú eru komnar hér inn á vefinn upptökur frá fjölsóttri ráðstefnu um ferðagönguleiðir sem Ferðamálstofa, Ferðafélag Íslands og Útivist stóðu fyrir í liðnum mánuði undir yfirskriftinni "Stikum af stað".

Upptökurnar er að finna undir liðnum Tölur og útgáfur / Fundir og ráðstefnur

Landsnet ferðaleiða í Sviss

Á ráðstefnunni var fjallað um framtíðarskipulag og -þróun lengri gönguleiða. Meðal framsögumanna var Lukas Stadtherr frá Swiss Mobility en sú stofnun hefur það hlutverk að þróa landsnet ferðaleiða í Sviss. Verkefnið hófst 1993 og nú er í Sviss vel þróað net göngu-, hjóla-, línuskauta- og kanóleiða. Hér má skoða heimasíðu þessa ferðanets.

Þjóðstígar á Íslandi

Strax í kjölfarið kynnti Gísli Rafn Guðmundsson verkefnið Þjóðstígar á Íslandi, en segja má að með því verkefni sé stigið fyrsta skrefið á þeirri leið sem Sviss hefur farið í sínu ferðaleiðaskipulagi. Í verkefninu eru drög að þróun gönguleiðakerfis fyrir Ísland með því að leggja mat á 15 gönguleiðir á Íslandi og þróa gæðastaðal með skýrum viðmiðum. Verkefnið nýtist stjórnvöldum til stefnumótunar og lagasetningar sem miðar að því að efla og koma á vönduðu og vel skilgreindu gönguleiðakerfi á Íslandi. Hér má kynna sér verkefnið.

Styttri erindi

Á ráðstefnunni voru því næst sex styttri fyrirlestrar um uppbyggingu og framtíðarsýn fyrir langar gönguleiðir og tengda áfangastaði, þar sem meðal annars var fjallað um Laugaveginn, Reykjaveginn, Dalakofann og nágrenni, Pílagrímaleiðina og Hornstrandir. Þá fjallaði Einar Á.E. Sæmundsen, fræðslu- og kynningarfulltrúi þjóðgarðsins á Þingvöllum, um þjóðgarða og gönguleiðir á Nýja Sjálandi og þá staðla sem þar hafa verið settir um eftirlit og viðhald. Sjá heimasíðu um stærstu og vinsælustu gönguleiðir þar í landi.