Fara í efni

Skýrsla um aðgengi fatlaðra að ferðamannastöðum

ferðamenn á útsýnispalli
©Ragnar Th. Sigurðsson

Út er komin skýrslan „Aðgengi fatlaðs fólks að ferðamannastöðum“ sem Norm ráðgjöf vann fyrir Ferðamálastofu. Þar er sjónum beint að lagalegri umgjörð aðgengismála fatlaðs fólks að ferðamannastöðum en réttur til aðgengis til jafns við ófatlað fólk er eitt af megin áhersluatriðum samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks.

Skilningur á mikilvægi þess að fatlaðir einstaklingar skuli njóta sömu lífsgæða að því er varðar aðgengi til jafns við ófatlaða, eftir því sem við verður komið, er sífellt að aukast. Í ljósi þessarar þróunar þótti brýnt kanna með hvaða hætti skapa megi ferðaþjónustunni úrræði til að gera úrbætur á aðgengi fatlaðs fólks að ferðamannastöðum og er skýrslunni ætlað að benda á leiðir í því sambandi.

Staðall eða gerð handbókar?

Í skýrslunni er m.a. velt upp hvort gerð staðals um aðgengi fatlaðs fólks að ferðamannastöðum sé æskilegasta lausnin miðað við núverandi stöðu mála. Að auki eru önnur álitaefni reifuð og þess freistað að leggja heildstætt mat á þetta mikilvæga málefni með því markmiði að koma því inn í umræðuna sem eitt af brýnni málefnum sem ferðaþjónustan þarf að taka til umfjöllunar á komandi misserum.

Meðal niðurstaðna er að gerð handbókar/viðmiðunarreglna sé líklegasta leiðin að svo stöddu til að skila bestum árangri í því að bæta aðgengi fatlaðs fólks að ferðamannastöðum hér á landi. Kemur þar margt til, en meginástæða þessarar niðurstöðu er sú að staðlavinna mun taka langan tíma og vera afar kostnaðarsöm og flókin.

NORA umsókn

Í framhaldi verkefni sem unnið var í samvinnu við NATA (North Atlantic Tourism Association) var ráðist í að sækja um styrk til NORA (North Atlantic Co-Operation) til gerðar handbókar/viðmiðunarreglna um aðgengi fatlaðs fólks að ferðamannastöðum á Vestur-Norðurlöndum. Af hálfu NORA eru veittir verkefnastyrkir til allt að 3ja ára, en eingöngu til árs hverju sinni. Að umsókninni koma fjölmargir aðilar frá Íslandi, Færeyjum, Grænlandi og einnig var leitað til Skotlands um samstarf, en þar í landi hefur verið tekið myndarlega á aðgengismálum fatlaðs fólks að ferðamannastöðum. Hafa skosk yfirvöld tekið vel í að veita ráðgjöf og aðstoða við verkefnið.

Verði verkefnið að veruleika á grundvelli umsóknarinnar, gera áætlanir ráð fyrir að fyrsti hluti handbókar / viðmiðunarreglna verði tilbúinn í júlí 2016. Þar verði tekið á innisvæðum, bókunarþjónustu o.fl. Síðan er gert ráð fyrir að sækja um að nýju fyrir tímabilið 2016-17, en þá verður einblínt á kynningu á handbókinni / viðmiðunarreglunum og jafnframt verða þar útisvæði tekin fyrir. Í umsókninni er einnig gert ráð fyrir að sótt verði um styrk fyrir tímabilið 2017-2018 og þá er stefnan að ljúka verkefninu og m.a. að koma upp vefsíðu með ítarlegum upplýsingum um aðgengi fatlaðs fólks að ferðamannastöðum á Vestur-Norðurlöndum.

Helstu niðurstöður

Að öðru leyti eru eftirfarandi tillögur settar fram í skýrslunni:

  1. Ferðamálastofa hafi forgöngu um að aðgengi fatlaðs fólks að ferðamannastöðum verði sett á dagskrá og að athygli stjórnvalda á þessum mikilvæga málaflokki verði vakin. Unnið verði að málinu í samræmi við ákvæði samnings SÞ um réttindi fatlaðs fólks um bætt aðgengi og endurskoðunar á löggjöf á grundvelli samningsins.
  2. Ferðamálastofa beiti sér fyrir því að fyrirtæki í ferðaþjónustu fái verkfæri í hendur til að bæta aðgengi fatlaðs fólks að þeirri þjónustu sem í boði er. Slíkt verkfæri væri til að byrja með handbók/viðmiðunarreglur, en miðað verði að því að seinna meir yrði þróaður staðall á grundvelli handbókarinnar/viðmiðunarreglnanna.
  3. Lög um skipan ferðamála nr. 73/2005 með síðari breytingum verði breytt þannig að bætt verði við ákvæði um að einn tilgangur laganna sé að tryggja aðgengi fatlaðs fólks að ferðamannastöðum. Jafnframt verði sett í lögin ákvæði sem kveður á um að nánari útfærslur á aðgengi að ferðamannastöðum verði skipað í stöðlum/viðmiðunarreglum. Einnig komi þar fram reglugerðarheimild þar sem kveðið verði á um að faggiltar skoðunarstofur framkvæmi vottanir á aðgengi fatlaðs fólks að ferðamannastöðum á grundvelli fyrirfram ákveðinna staðla/viðmiða.
  4. Fjallað verði sérstaklega um mikilvægi bætts aðgengis fatlaðs fólks að ferðamannastöðum í ferðamálaáætlun.
  5. Ferðamálastofa geri standi fyrir sérstöku átaki í að vekja athygli hagsmunaaðila á þessu mikilvæga máli og upplýsingum um aðgengismál verði safnað á kerfisbundinn hátt.