Fara í efni

Skagafjörður formlega útnefndur EDEN-áfangastaður

Afhending EDEN 2015
Mynd: Laufey Skúladóttir frá Sveitarfélaginu Skagafirði og Laufey Haraldsdóttir frá Háskólanum á Hólum veittu viðurkenningunni viðtöku.

Þann 17. desember síðastliðinn fékk Skagafjörður afhenta viðurkenningu sína sem EDEN-gæðaáfangastaður í Evrópu. Athöfnin fór fram í Brussel í tengslum við Ferðamáladag Evrópu og var Skagafjörður þar með sýningarbás til að kynna svæðið.

EDEN stendur fyrir „European Destination of Excellence“ en markmið verkefnisins er að vekja athygli á gæðum, fjölbreytileika og sameiginlegum einkennum Evrópskra áfangastaða og kynna til sögunnar nýja, lítt þekkta, áfangastaði vítt og breitt um Evrópu þar sem áhersla er lögð á ferðaþjónustu í anda sjálfbærni.

Bás Skagafjarðar á EDEN 2015

Matarkistan Skagafjörður

Ferðamálastofa er aðili að verkefninu fyrir Íslands hönd. Annað hvert ár er haldin samkeppni í aðildarlöndum EDEN, með nýju þema í hvert sinn, en þema ársins 2015 var matartengd ferðaþjónusta. Sérstök valnefnd fór yfir þær umsóknir sem bárust frá íslenskum áfangastöðum og ákvað að útnefnda Sveitarfélagið Skagafjörð sem gæðaáfangastað Íslands 2015 fyrir verkefnið Matarkistan Skagafjörður. Annað sætið hlaut Skaftárhreppur fyrir verkefnið Hvað er í matinn? Á myndinni til hliðar er Laufey Haraldsdóttir í bás Skagafjarðar í Brussel.

Hvatningarstyrkur frá Ferðamálastofu

Allir EDEN verðlaunahafar fá töluverða umfjöllun og kynningu í fjölmiðlum í Evrópu í tengslum við verðlaunaafhendinguna og á vefsíðum og kynningarritum EDEN verkefnisins eftir það. En þar sem tilnefningu frá EDEN verkefninu fylgir ekki stuðningur í formi fjármagns, ákvað Ferðamálastofa einnig að veita hvatningarstyrk til Matarkistunnar Skagafjarðar að upphæð kr. 250.000 til undirbúnings á matartengdum ferðapakka um Skagafjörð.

Myndir og vídeó

Slóð á fleiri myndir frá athöfninni í Brussel er hér að neðan, sem og myndband sem EDEN lét vinna til kynningar á Skagafirði.