Fara í efni

Ríkisstjórnin úthlutar 850 milljónum til brýnna verkefna á ferðamannastöðum

Til að tryggja að íslensk náttúra og öflug ferðaþjónusta geti blómstrað samtímis hefur ríkisstjórnin samþykkt að verja í sumar 850 milljónum króna til brýnna uppbyggingar- og verndaraðgerða á ferðamannastöðum sem eru í eigu eða umsjón ríkisins.

Í frétt á vef atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins kemur fram að ráðist verður í 104 verkefni á 51 stað á landinu, auk þess sem viðbótarfé verður varið til aukinnar landvörslu um allt land. Mest verður framkvæmt í Skaftafelli og á Þingvöllum, við Geysi, í Dimmuborgum, á miðhálendinu, við Gullfoss, Dyrhólaey, Dynjanda, Stöng í Þjórsárdal og Dettifoss. Verkefnin eru af ýmsum toga en megináhersla er lögð á framkvæmdir vegna göngustíga, útsýnispalla, bílastæða og salernisaðstöðu.

Kortasjá Framkvæmdasjós

Fyrirliggjandi framkvæmdaáætlun fyrir þetta ár var unnin í samstarfi forsætisráðherra, iðnaðar- og viðskiptaráðherra og umhverfis- og auðlindaráðherra. Kallað var eftir tillögum þeirra stofnana sem hafa umsjón með umræddum svæðum og í kjölfarið var verkefnum forgangsraðað í samræmi við faglegt mat á því hver þörfin væri. Fjármagnið mun renna til Framkvæmdasjóðs ferðamannastaða sem mun annast umsýslu og eftirlit með verkefnaáætluninni.