Fara í efni

Nýjar niðurstöður um félagsleg og menningarleg þolmörk

Félagsleg þolmörk - forsíðaÚt er komin skýrslan „Félagsleg áhrif ferðamennsku og ferðaþjónustu" þar sem kynntar eru niðurstöður viðamikillar rannsóknar Ferðamáladeildar Háskólans á Hólum á félagslegum og menningarlegum þolmörkum ferðamennsku og ferðaþjónustu. Um er að ræða eitt þeirra verkefna sem Ferðamálastofa ákvað á árinu 2014 að láta ráðast í og kynnt verður á morgun á ráðstefnu á Grand Hótel Reykjavík.

Síðari hluti af tvíþættri rannsókn

Rannsóknin var tvíþætt. Fyrri hlutinn var spurningakönnun meðal landsmanna um viðhorf til ferðaþjónustu/ferðamennsku sem Félagsvísindastofnun HÍ framkvæmdi og Rannsóknamiðstöð ferðamála vann skýrslu um niðurstöðurnar. Seinni hlutinn, sem hér er kynntur, er unninn af Ferðamáladeild Háskólans á Hólum. Sú rannsókn byggir á eigindlegum aðferðum þar sem gagna var aflað með vettvangsathugunum og viðtölum á vordögum 2015. 

Flókið samspil

Í inngangi skýrslunnar kemur fram að áhrif ferðamennsku á náttúrufar hafa talsvert verið rannsökuð hérlendis en minna hefur verið unnið í rannsóknum á öðrum þáttum sjálfbærni. Menningarleg og félagsleg áhrif eru hinsvegar margslungin þannig að ás ánægju-óánægju gefur aðeins takmarkaða vísbendingu um eðli þeirra. Því sé vert að nálgast viðfangsefnið frá fleiri sjónarhornum og með það í huga að engin endanleg formúla finnst um hver eru þolmörk samfélags og menningar. 

„Rannsóknin rennir stoðum undir þær kenningar að lífsferill áfangastaða, áhrif ferðamennsku/ferðaþjónustu og lífsgæði íbúa séu mun flóknara samspil en svo að fjöldi ferðafólks miðað við höfðatölu hafi forspárgildi um hvernig leikurinn fer," segir orðrétt.

Helstu niðurstöður

  • Í þessari rannsókn hefur ekkert komið fram, sem bendir til að Íslendingar séu búnir að fá nóg af ferðafólki. Þvert á móti liggur viðmælendum í rannsókninni gott orð til ferðafólks, þykir það setja líflegan blæ á bæinn sinn og kann að meta áhuga þess á staðnum. Viðmælendur tala jafnframt af umhyggju fyrir ferðafólkinu, vilja að það fái sem mestar og bestar upplýsingar, sé öruggt og leggja gjarna sitt að mörkum svo að gestirnir njóti Íslandsferðarinnar.

  • Vettvangsathuganir og viðtöl benda þó til að ákveðnir staðir séu ofsetnir og ákveðin atriði truflandi miðað við skipulag bæði manngerðs umhverfis og framkvæmd ferðaþjónustunnar. Umferð ökutækja, för ferðahópa, gangandi umferð blönduð heimafólki og ferðafólki er núningsflötur, þar sem bæði öryggi og lífsgæði ferðafólks og heimamanna er í húfi.

  • Þá er það áhyggjuefni hvað félagslega sjálfbærni ferðaþjónustunnar varðar að þótt viðmælendur séu einróma um að greinin sé efnahagslega mikilvæg og ört vaxandi, þá efast margir viðmælendur um sjálfbærni hennar til framtíðar. Viðmælendur fylgjast vel með ferðaþjónustunni, af stolti yfir gæðastarfi en að sama skapi áhyggjum af sókn í skyndigróða, að hér sé enn ein íslenska efnahagsbólan. Það má því leiða líkum að því að það sé mikilvæg áskorun fyrir atvinnugreinina að ávinna sér í meira mæli traust og tiltrú íslensks almennings.

  • Síðast en ekki síst gengur ákallið um stefnu, skipulag og aðgerðir stjórnvalda á lands og sveitarfélagsvísu, sem rauður þráður gegnum viðtölin. Það ákall er ekki um fækkun ferðafólks heldur um sterkari innviði til að taka á móti því með þeirri gestrisni sem viðmælendum finnst mikilvæg.

Skýrslan í heild:

Félagsleg áhrif ferðamennsku og ferðaþjónustu