Fara í efni

Könnun um ferðalög Íslendinga og viðhorf til málefna ferðaþjónustunnar

Niðurstöður liggja fyrir úr könnun um ferðalög Íslendinga á árinu 2014 og viðhorf þeirra til málefna ferðaþjónustunnar sem Ferðamálastofa fékk MMR til að framkvæma í janúar síðastliðnum. Er þetta sjötta árið í röð sem könnun Ferðamálastofu um ferðahegðun landsmanna er gerð með sambærilegum hætti.

Að hverju þarf að huga við uppbyggingu ferðaþjónustunnar

Þar sem málefni ferðaþjónustunnar hafa verið í brennidepli síðustu vikur og mánuði þótti áhugavert að kanna afstöðu landsmanna til þess hvað hið opinbera ætti að leggja áherslu á næstu fimm árin til að stuðla að uppbyggingu ferðaþjónustunnar. Um var að ræða opna spurningu og gátu svarendur nefnt allt að þrjú atriði en svörin voru greind eftir nokkrum efnisflokkum eins og sjá má af niðurstöðum hér að neðan.

Hvaða 3 atriði á að leggja áherslu á

Ríflega helmingur svarenda nefndi atriði varðandi innviði ferðaþjónustunnar, uppbyggingu, aðgengi og skipulag. Mörgum eða tæplega þriðjungi var gjaldtaka og skattamál ýmiss konar hugleikin, ríflega fjórðungur nefndi sitthvað í tengslum við aðkomu hins opinbera, eftirlit, stuðning, markaðsmál og menntun og fjórðungur atriði varðandi vegakerfi og samgöngur almennt. Annað sem nefnt var tengdist m.a. stýringu á fjölda og dreifingu ferðamanna, salernisaðstöðu, verðlagningu og náttúrupassa.


Áhrif ferðaþjónustu og erlendra ferðamanna á náttúru og samfélag

Mat á áhrifumÍ könnuninni var endurtekin spurning frá því í fyrra þar sem ferðamenn voru beðnir um að taka afstöðu til nokkurra fullyrðinga um áhrif ferðaþjónustu og erlendra ferðamanna á náttúru og samfélag. Eins og sjá má af mynd voru fleiri á því að álag ferðamanna væri of mikið á íslenska náttúru í janúar í ár en á sama tíma í fyrra. Mun færri voru ennfremur á því í ár að ferðamenn hefðu aukið áhuga Íslendinga á íslenskri náttúru og íslenskri menningu. Færri voru ennfremur á því í ár að ferðaþjónusta hefði skapað eftirsóknarverð störf í heimabyggð en álíka margir voru á því í ár, og í fyrra að ferðaþjónusta hefði leitt til fjölbreyttari þjónustu sem menn hefðu nýtt sér.

Ferðalög innanlands þar sem dvalið var yfir nótt

Niðurstöður könnunarinnar gefa sem fyrr til kynna hversu ferðaglaðir Íslendingar eru. Nærri níu af hverjum tíu svarendum ferðuðust innanlands árið 2014 en um er að ræða svipað hlutfall og niðurstöður fyrri kannana Ferðamálastofu gefa til kynna. Farnar voru að jafnaði 6,6 ferðir, ívið fleiri en árið 2013 en þá voru farnar 5,7 ferðir. Dvalið var að jafnaði 15,7 nætur á ferðalögum innanlands árið 2014 eða álíka margar og árið 2013. 

Hvenær á árinu var ferðast innanlands

Ferðalög landsmanna eru árstíðabundin sem fyrr og kemur eflaust fáum á óvart. Júlí og ágúst voru stærstu ferðamannamánuðirnir en 68,2% ferðuðust innanlands í júlí 2014 og 62,8% í ágúst. Júnímánuður fylgdi síðan fast á eftir en þá ferðaðist ríflega helmingur. Í öðrum mánuðum var ferðast í mun minna mæli. Þegar ferðalög eru skoðuð eftir mánuðum þau sex ár sem Ferðamálastofa hefur gert sambærilegar kannanir má greina breytingar í þá átt að þeim virðist fara lítilsháttar fjölgandi sem ferðast innanlands yfir vetrarmánuðina.

Hvar var gist og hvaða landshlutar og staðir heimsóttir

landshlutar heimsóttirFlestir heimsóttu Norðurlandið og Suðurlandið á ferðalögum um landið en fast á eftir kom Vesturlandið, eins og mynd til hliðar sýnir.

Af svörum um dvalarlengd innan einstakra landshluta má hins vegar ætla að um helmingi gistinótta hafi verið eytt á á Suðurlandi og Norðurlandi sem er álíka hátt hlutfall og árið 2013. Ríflega 14% gistinótta var varið á höfuðborgarsvæðinu og Reykjanesi, 14,1% á Vesturlandi, 12,5% á höfuðborgarsvæðinu, 11,2% á Austurlandi, 7,1% á Vestfjörðum og 3,3% á hálendinu.

Hvaða staðir heimsóttir

Helmingur svarenda sem ferðaðist innanlands árið 2014 heimsótti Akureyri sem er sama hlutfall og árið áður en alls var spurt um heimsóknir á 55 staði og svæði vítt og breitt á landinu utan höfuðborgarsvæðisins (6-9 í hverjum landshluta). Eins og fram kemur hér að ofan tilgreindu 27,5% höfuðborgarsvæðið en listinn yfir 10 fjölsóttustu staðina var annars eftirfarandi:

Heimsóttir staðir - tafla

Dagsferðir

Landshlutar - dagsferðirSpurt var sértaklega um dagsferðir en þær voru skilgreindar sem skemmtiferðir, fimm klst. langar eða lengri út fyrir heimabyggð án þess að gist væri yfir nótt. Tæplega tveir þriðju fór í dagsferð á árinu 2014 eða álíka hátt hlutfall og árið 2013. Farin var að jafnaði 8,1 ferð en fjöldi ferða var 7,9 árið 2013. Þingvellir, Gullfoss og Geysir voru þeir staðir sem oftast voru heimsóttir í dagsferðum og þar á eftir höfuðborgarsvæðið, sé það skilgreint sem einn staður. Annars voru 10 fjölsóttustu staðirnir í dagsferðum, af þeim 55 sem um var spurt, eftirfarandi:

Dagsferðir -tafla

Utanlandsferðir

Tveir þriðju aðspurðra fóru í utanlandsferð á árinu en hlutfallið hefur ekki mælst svo hátt síðastliðin sex ár í þeim könnunum sem FMS hefur látið framkvæma meðal landsmanna. Þeir sem ferðuðust utan árið 2014 fóru að jafnaði 2,4 utanlandsferðir ívið fleiri en 2013 þegar farnar voru að jafnaði tvær ferðir. Gist var 17,4 nætur í útlöndum að jafnaði árið 2014 eða álíka margar og 2013 og voru þá ekki teknar með í úrvinnslu ferðir þar sem dvalið var 100 nætur og lengur. Ferðalög voru að stærstum hluta bundin við Evrópu en 28,6% ferðuðust til Spánar og Portúgals, 28,3% til Bretlands eða Írlands, 24,3% til Danmerkur, 16,5% til Þýskalands, 13,8% til Svíþjóðar, 11,0% til Noregs, 10,5% til Frakklands og 42,0% til annarra landa í Evrópu. Til Bandaríkjanna og Kanada ferðuðust 23,5% og til annarra landa utan Evrópu og N-Ameríku 7,6%

Borgarferðir voru vinsælastar en 43,6% fóru í eina slíka, 28,1% heimsótti vini og ættingja, 29,0% fóru í sólarlandaferð og 22,5% í vinnutengda ferð.

Ferðaáform

ferðaáformNíu af hverju tíu hafa áform um ferðalög á árinu 2015 eða sambærilegur fjöldi og í fyrri könnunum. Ferðaplönin eru fjölbreytt að vanda en meira en helmingur ætlar í sumarbústaðaferð innanlands og í heimsókn til vina og ættingja. Borgarferðir erlendis njóta vaxandi vinsælda og stefna 42,4% á eina slíka á árinu. Fjölmargir nefndu aðra valkosti s.s. ferð með vinahópi eða klúbbfélögum, sólarlandaferð, bæjarferð innanlands, að elta góða verðrið og útivistarferð.

Um könnunina

Könnunin var unnin sem netkönnun dagana 9. til 14. janúar 2015. Úrtakið var 1.600 Íslendingar á aldrinum 18-80 ára, valdir handahófskennt úr 18.000 einstaklinga álitsgjafahópi MMR sem valinn var með tilviljunarúrtaki úr þjóðskrá. Svarhlutfall var 62,1%. Spurningalistinn sem könnunin byggði á samanstóð af 25 spurningum og er að mestu leyti sambærilegur þeim sem Ferðamálastofa hefur lagt fyrir Íslendinga síðastliðin ár. Niðurstöður könnunarinnar eru vigtaðar með tilliti til kyns, aldurs, búsetu og menntunar í þýði. Framkvæmd og úrvinnsla var í höndum MMR.“

Könnunin í heild:

Ferðalög Íslendinga 2014 og ferðaáform þeirra 2015

Opin svör við spurningu um uppbyggingu ferðaþjónustu