Fara í efni

Hálf öld frá stofnun Ferðamálaráðs Íslands

Hér má sjá afrit af fundargerð 1. fundar Ferðamálaráðs Íslands.
Hér má sjá afrit af fundargerð 1. fundar Ferðamálaráðs Íslands.

Síðastliðinn mánudag voru 50 ár liðin frá því Ferðamálaráð Íslands tók til starfa en fyrsti fundur ráðsins var haldinn 7. júlí 1964. Ferðamálaráð Íslands var forveri Ferðamálastofu, þótt í annarri mynd væri.

Varð síðar Ferðamálastofa

Lúðvíg Hjálmtýsson, fyrsti formaður Ferðamálaráðs, var lengi vel eini starfsmaður ráðsins ásamt ritara og starfsmanni í hálfu starfi sem sá um lánsumsóknir úr Ferðamálasjóði. Lúðvíg var skipaður fyrsti ferðamálastjórinn eftir lagabreytingar árið 1976 og með opnun skrifstofu í Reykjavík má segja að formleg stofnun hafi verið orðin til. Með breytingum á lögum um skipan ferðamála í ársbyrjun 2006 var nafni stofnunarinnar síðan breytt í Ferðamálastofa en ferðamálaráð fékk annað hlutverk.

Aflar nú mesta gjaldeyris

Á þessum 50 árum hefur mikilvægi atvinnugreinarinnar fyrir þjóðarbúið aukist mikið. Má nefna að árið 1963 námu tekjur af ferðaþjónustu 0,8% af gjaldeyristekjum þjóðarinnar en árið 2013 komu 26,8 % af gjaldeyristekjunum frá ferðaþjónustunni og var hún sú atvinnugrein sem mest gjaldeyris aflaði.

Að sama skapi hefur ferðamönnum sem leggja leið sína til Íslands fjölgað mikið. Fyrstu tíu árin (1965 til 1974) lögðu samtals 510 þúsund erlendir ferðamenn leið sína til landsins en í ár stefnir í að ferðamenn fari í fyrsta sinn yfir 1 milljón á einu ári.

Sígild viðfangsefni

Þótt starfsemin hafi breyst mikið á undanförnum 40 árum þá eru viðfangsefnin sígild. Þannig gæti fyrsta erindið sem tekið var fyrir á fyrsta fundi ráðsins þann 7. júlí 1964 eins hafa verið til umræðu í dag en það erindi var frá stjórnvöldum sem leituðu álits Ferðamálaráðs á þeirri hugmynd að selja aðgang að Þórsmörk. Lagðist ráðið gegn hugmyndum um slíka gjaldtöku.

Fjórir ferðamálastjórar frá upphafi

Ferðamálastjóri var fyrst skipaður árið 1976 og hafa fjórir gengt því starfi; Lúðvíg Hjálmtýsson, Birgir Þorgilsson, Magnús Oddsson og núverandi ferðamálastjóri, Ólöf Ýrr Atladóttir.