Fara í efni

Gistihluti VAKANS opnar fyrir hótel

Gistihluti VAKANS opnar fyrir hótel

Ný og endurbætt gæðaviðmið fyrir hótel hafa nú verið birt á heimasíðu VAKANS og er það fyrsti áfanginn af opnun gistihluta gæða- og umhverfiskerfis ferðaþjónustunnar. Hótel geta því nú sótt um þátttöku í VAKANUM en síðar á árinu verða birt gæðaviðmið fyrir aðra flokka gistingar.

Byggir á Hotelstars

Viðmiðin byggja á viðmiðum Hotelstars (sjá hotelstars.eu) en í dag starfa alls 15 Evrópulönd eftir þessum sömu viðmiðum og fleiri eiga eftir að bætast í hópinn á næstu misserum. Um allan heim eru ferðamenn vanir stjörnugjöf til viðmiðunar og fylgja mjög oft vitnisburði gæðakerfa og flokkana sem birtast í niðurstöðum leitarvéla.
Flokkun gististaða á Íslandi með stjörnugjöf hefur sannað sig sem nauðsynlegur og mjög mikilvægur þáttur í uppbyggingu gæðaferðaþjónustu hérlendis, ekki eingöngu fyrir aðila í gistiþjónustu heldur alla ferðaþjónustuna og þar með áfangastaðinn Ísland í heild.

Tekur við af núvernadi flokkunarkerfi

Í dag eru tæplega 70 gististaðir flokkaðir hér á landi frá tveimur og upp í fjórar stjörnur. Þessir gististaðir urðu hluti af íslenska flokkunarkerfinu sem hóf göngu sína árið 2000 og nú er tækifæri til að óska eftir uppfærslu í ný hótelviðmið VAKANS. Stjörnuflokkarnir eru eins og áður, frá einni og upp í 5 stjörnur, en nú með „superior“ möguleika.

Fyrstu umsóknir komnar

Fyrstu hótelin eru nú þegar farin að sækja um þátttöku og því mun fjölga umtalsvert í VAKANUM á árinu. Nánari upplýsingar má fá hjá Öldu Þrastardóttur verkefnastjóra í síma 535 5500 eða með því að senda póst á alda@ferdamalastofa.is