Fara í efni

Áhugaverðar niðurstöður í könnun meðal erlendra ferðamanna í sumar

Konnun20102
Konnun20102

Langflestir erlendir gestir sem koma til Íslands eru ánægðir með Íslandsferðina en 97% telja að hún hafi uppfyllt væntingar. Þetta er meðal niðurstaðna úr nokkrum spurningum sem Ferðamálastofa fékk Rannsóknir og ráðgjöf ferðaþjónustunnar (RRF) til að leggja fyrir erlenda gesti á Íslandi sumarið 2010.

Tilgangurinn með þessum spurningum var m.a.  að skoða samsetningu ferðamanna á Íslandi sumarið 2010, hvað dró þá til landsins, hvaða afþreyingu nýttu þeir og hver var upplifun þeirra á Íslandi en spurningarnar eru liður í almennri gagnasöfnun Ferðamálastofu um ferðamenn á Íslandi.

Hvaðan kom hugmynd að Íslandsferð
Eins og í fyrri könnunum nefna flestir svarenda (62%) náttúruna og landið þegar spurt er um hvaðan hugmynd að Íslandsferð kom. Margir nefna vini og ættingja eða 28%, 10% nefna fyrri heimsókn en 5-7% hafa orðið fyrir áhrifum frá Internetinu, greinum í blöðum/tímaritum, ferðahandbókum/bæklingum, íslenskum bókmenntum/kvikmyndum, sjónvarps- eða útvarpsefni eða frá ferðaskrifstofum og flugfélögum. Aðrir þættir hafa minni áhrif.

Þættir sem hafa áhrif á ákvörðun
Mikill meirihluti sagði náttúruna (82%) hafa haft áhrif á ákvörðun um Íslandsferð 2010 en þriðjungur nefndi íslenska menningu eða sögu. Aðrir þættir komu þar langt á eftir s.s. hagstætt ferðatilboð (10%), vinir/ættingjar á Íslandi (10%), millilending (7%) og spa/heilsulind (6%).

Áhrif gossins í Eyjafjallajökli
Þegar erlendir gestir voru spurðir um áhrif eldgossins í Eyjafjallajökli sögðust einungis 9% að þeir hefðu íhugað að hætta við Íslandsferð vegna gossins. Ef niðurstöður eru síðan skoðaðar eftir þjóðernum kemur í ljós að það voru einkum Spánverjar sem hugleiddu að hætta við ferð.

Hvaða afþreying er nýtt?
Eins og áður hafa erlendir gestir á Íslandi einkum áhuga á náttúrutengdri afþreyingu en 82% sögðust hafa farið í náttúruskoðun í Íslandsferðinni sumarið 2010. 62% sögðust hafa farið í sund eða náttúruböð, helmingur í gönguferðir eða fjallgöngu og tæplega helmingur á söfn eða sýningar.  Þá fóru 39% í hvalaskoðun, 36% í bátsferð, 31% heimsóttu handverksmiðstöð, 25% fóru í spa/heilsulind, 21% í eldfjallaferð, 16% í jökla- eða snjósleðaferð, 13% í hestaferð, 12% sóttu hátíð/viðburð, 7% fóru í lengri ferð með leiðsögn, 4% í fljótasiglingu (rafting) eða í stangveiði/skotveiði og 1% sérstaka heilsumeðferð.

Hvað var minnisstæðast úr Íslandsferðinni?
Þegar svarendur voru spurðir að því hvað þeim hefði þótt minnisstæðast við Íslandsferðina nefndu langflestir náttúrutengda þætti eða einstaka staði á landinu. Þannig nefndi 19,1% náttúruna og landslagið, 18,5% Bláa lónið, 17,8% Jökulsárlón, 17,5% Geysi, 12,6% Gullfoss, 10,6% Mývatn, 8,4% Landmannalaugar, 7,6% hvali eða hvalaskoðun, 7,2% Reykjavík og 6,4% eldfjöll eða eldfjallaferðir.

Íslandsferðin uppfyllir væntingar
Eins og áður sagði voru erlendir gestir nokkuð sáttir við Íslandsferðina á heildina litið og sögðu 65% að hún hefði uppfyllt væntingar að öllu leyti, 32% að hún hefði uppfyllt væntingar að mestu leyti en 3% að nokkru eða litlu leyti. 

Um svarendur og könnunina
Karlar voru 59% svarenda en konur 41%. Meðalaldur svarenda var 43,1 ár.  Ríflega helmingur (52%) svarenda var með há laun eða laun yfir meðallagi, 38% með laun í meðallagi en 10% lág laun eða laun undir meðallagi.  Meðaldvalarlengd í Íslandsferðinni var 10,4 nætur. Ferðamenn frá Þýskalandi, Spáni og Frakklandi dvöldu að jafnaði allra lengst eða um 13 nætur.  

Könnun Rannsókna og ráðgjafar ferðaþjónustunnar (RRF) var gerð meðal erlendra brottfarargesta í Leifsstöð og á Seyðisfirði á tímabilinu júní til ágúst 2010. Könnunin byggir á 1.378 gildum svörum, 1.256 svörum frá flugfarþegum og 122 frá Norrænufarþegum.

Ýmsar aðrar áhugaverðar niðurstöður má sjá úr sumarkönnuninni í samantekt sem Rannsóknir og ráðgjöf ferðaþjónustunnar (RRF) vann fyrir Ferðamálastofu en skýrsluna í heild má nálgast hér að neðan

Erlendir ferðamenn á Íslandi sumarið 2010 og samanburður við sumrin á undan (PDF)