Fara í efni

Menntun framtíðarleiðtoga í ferðaþjónustu

Ferðamáladeild Háskólans á Hólum boðar til ráðstefnu á Grand Hótel mánudaginn 3. október þar sem umfjöllunarefnið er menntun á háskólastigi í ferðamálafræði og gestamóttöku. Ráðstefnan er haldin í tilefni af 20 ár afmæli ferðamáladeildarinnar og henni er ætlað að vera innlegg í þá umræðu sem nú stendur yfir um menntun í ferðamálum.

Ragnheiður Elín Árnadóttir ráðherra ferðamála og Ólöf Ýrr Atladóttir ferðamálastjóri munu ávarpa ráðstefnuna ásamt Erlu Björk Örnólfsdóttur, rektor Háskólans á Hólum og Laufeyju Haraldsdóttur deildarstjóra ferðamáladeildar.

Reidar J Mykletun prófessor við Universitetet i Stavanger í Noregi og Þórir Erlingsson kennari við Ferðamáladeild Kennesaw State University í Bandaríkjunum munu fjalla um nám í gestamóttöku í Noregi og í Bandaríkjunum og fulltrúar frá ferðaþjónustunni, þau Erna Dís Ingólfsdóttir frá Íslandshótelum, Jónas Guðmundsson frá Safe Travel, Ágúst Elvar Bjarnason frá Arctic Adventures og Ingibjörg Ólafsdóttir, hótelstjóri Radison Blu - Hótel Saga munu ávarpa ráðstefnuna.

Ráðstefnunni mun ljúka á pallborðsumræðum þar sem Óskar Jósefsson frá Stjórnstöð ferðamála, Gunnar Jóhannesson frá Ferðamáladeild HÍ, Ingibjörg Sigurðardóttir frá Ferðamáladeild Háskólans á Hólum, María Guðmundsdóttir frá SAF og Baldur Sæmundssonfrá Menntaskólanum í Kópavogi munu ræða stöðu háskólamenntunar í ferðaþjónustu á Íslandi og næstu skref. Stjórnandi pallborðsins verður Guðrún Þóra Gunnarsdóttir frá Rannsóknarmiðstöð ferðamála.
Fundarstjóri verður Helga Árnadóttir framkvæmdastjóri SAF.

Aðgangur er ókeypis, allir velkomnir og skráning fer fram á vef Háskólans á Hólum, holar.is.